145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að ríkisstjórnin hefst nú loksins handa um að lækka tryggingagjaldið svo einhverju nemi því að það gerði hún ekki fyrstu þrjú ár kjörtímabilsins heldur flutti mikla tekjustofna yfir til ríkisins úr tryggingagjaldinu í stað þess að láta það lækka að einhverju leyti í takt við lækkandi atvinnuleysi eins og allir höfðu gert ráð fyrir. Annað er hins vegar mikið áhyggjuefni þegar nú á að fara að lækka tryggingagjaldið, það er sú hraklega útreið sem Fæðingarorlofssjóður hefur fengið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hún tók sig til og helmingaði tekjustofn hans eða hlutdeild hans í tryggingagjaldi fyrir tveimur árum. Það er alveg ljóst að ekki verður unnt að fjármagna neinar umbætur að ráði í fæðingarorlofinu nema styrkja tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs aftur. Það er mikill hausverkur að um leið og eftir atvikum skuli ekki tekist á við það þegar almenn lækkun tryggingagjaldsins í heild er stillt af.

Ég er sammála því sem fjármálaráðherra lagði til að afnema samsköttunina (Forseti hringir.) í tengslum við breytta framsetningu þrepanna (Forseti hringir.) og finnst satt best að segja undarlegt að heyra jafnvel konur koma hér upp og tala eins og þær hafi ekki einustu hugmynd um þá kynjaskírskotun sem þetta hefur auðvitað.