145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að fjalla um sölu á tollkvóta í Fríhöfninni í Keflavík og verið að taka upp einingakerfi. Isavia, sem þekkir þetta best, hefur gert alvarlegar athugasemdir við þá útfærslu sem þarna er og telur að með þessu sé verið að skerða þann tollkvóta sem ferðamenn mega kaupa í Fríhöfninni af áfengum drykkjum. Mér finnst miður að nefndin skuli ekki hafa kallað til sín fulltrúa Isavia og þeir fengið að útskýra þetta. Ég trúi því ekki að við ætlum hér að skerða þennan kvóta hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Með tilliti til þess að Isavia hefur mestu þekkingu á þessu — gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að tekjur ríkisins frá Isavia aukist hvað þetta varðar og það má draga í efa við þessa breytingu. Þess vegna vil ég hvetja nefndina til þess að kalla saman fund, kalla fulltrúa Isavia á fundinn (Forseti hringir.) og athuga hvort þau sjónarmið sem þeir setja fram séu ekki góð og full ástæða til að taka tillit til þeirra.