145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

grunnskólar.

675. mál
[12:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að endurtaka heldur árétta og taka undir það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson fór yfir í fyrri ræðu. Ég styð málið og tel mjög mikilvægt að hafa fjölbreytni í skólamálum, sérstaklega á þessum tímum þar sem breytingarnar eru miklar hvað varðar upplýsingagjöf og möguleika til lærdóms. Það er mikil þróun í gangi í þessum málaflokki almennt sem er mjög mikilvægt að löggjöfin viðurkenni og geri sér grein fyrir. Þó skrifa ég undir álit meiri hlutans með fyrirvara um að ég tel að hlutfallstala fjárframlaga úr sveitarsjóði til sjálfstætt starfandi grunnskóla eigi að miðast við 90% í stað 75%. Ég vil halda því til haga og mér finnst grundvallaratriði að skólar séu fjármagnaðir af samneyslunni þannig að sjálfstætt reknir skólar séu raunverulegur valkostur fyrir alla sem þá þjónustu vilja nýta.