145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

grunnskólar.

675. mál
[12:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það hvað varðar sjálfstætt reknu grunnskólana að hér er að raungerast niðurstaða úr mjög vandaðri vinnu, lögfræðivinnu, sem fór af stað einmitt vegna þess að slík staða kom upp í einu tilteknu sveitarfélagi þar sem reyndi á þessa þætti. Ég tel að lögfræðilega niðurstaðan hafi verið mjög vel undirbúin.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður sagði áðan um 75% markið vil ég nefna að það er vegið meðaltal af heildarrekstrarkostnaði allra grunnskóla á landinu. Þeir skólar sem eru minni úti á landi eru gjarnan dýrari en stærri skólarnir t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Ef við færum með lágmarkið í 90% mundi það þýða að á stórum svæðum landsins þar sem fjölmennu skólarnir eru væru slíkir skólar með umtalsvert meira rekstrarfé en skólarnir á svæðinu í kring. Þess vegna lagði ég ekki til 90%. Menn verða að hafa í huga að meðaltalið getur virkað svolítið blekkjandi. En ég (Forseti hringir.) er aftur á móti sammála hv. þingmanni um að það skiptir máli að sem flestir eigi þessa möguleika og við fáum fleiri mismunandi úrræði og fleiri valkosti fyrir foreldra til að velja, þó þannig að ekki sé verið að kaupa menntun eða setja (Forseti hringir.) einhverja stöðu upp sem er umfram það sem aðrir fá. Þess vegna hafði ég ekki t.d. lagt til 90%.