145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða stórt mál eins og fram hefur komið. Hér er líka um að ræða mjög óvenjulegt þverpólitískt verklag í stóru máli, verklag sem er til fyrirmyndar og við eigum að viðhafa í öllum stórum átakamálum fyrir íslenskt samfélag. Hér er um að ræða mál sem er mikil réttarbót og til mikilla framfara fyrir mikilvægan málaflokk, allt í átt til aukinnar mannúðar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Í málaflokki sem þessum erum við aldrei á endastöð. Við þurfum að vanda okkur í hverju einasta skrefi og í anda þessarar samstöðu ef við þurfum að gera breytingar á lögunum í framtíðinni. Vegna mikilvægis málaflokksins er afar mikilvægt að Alþingi fylgist vel með framkvæmd laganna og tryggi fjármagn í framkvæmd þeirra. Ég legg til að þingmannanefndin hafi sérstakt hlutverk í þeim efnum að fylgjast með því hvernig þessu máli reiðir af í framkvæmd framkvæmdarvaldsins og við höfum áfram þverpólitíska (Forseti hringir.) vinnu eins og við höfum haft undir frumkvæði hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.