145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar ég segi erlendum kollegum mínum frá því að á Íslandi hafi myndast þverpólitísk samstaða um löggjöf um útlendinga á þessum tímum þá eru viðbrögðin algjör forundran en líka mikil hrifning. Ég vil þess vegna undirstrika mikilvægi þess fyrir íslenska þjóð að við stöndum saman í jafn viðkvæmum og flóknum málaflokki og útlendingamál eru. Margir eiga hrós skilið við þessar aðstæður, núverandi innanríkisráðherra, fyrrverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem felldi þetta mál í upphafi í þennan farsæla farveg; þingmannanefndin sem vann vel að þessu og svo þingnefndin sjálf. Ég vil að síðustu hrósa okkur öllum fyrir að hafa náð að viðhalda þessari samstöðu og þróa hana áfram undanfarin missiri.