145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:13]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum hér að greiða atkvæði um gjörbyltingu í málaflokknum, endurskoðaða löggjöf frá upphafi. Þetta frumvarp er sennilega ekki óskafrumvarp eða draumafrumvarp neins; þetta er hins vegar frumvarp sem flestallir, ef ekki allir, geta sætt sig við. Það er unnið í breiðri þverpólitískri samstöðu. Það er unnið í mjög miklu samráði úti á vettvangi við hagsmunaaðila, við stofnanir og full ástæða er til að þakka kærlega þeim sem hafa komið að þessari vinnu innan þings og utan úr ráðuneytum, stofnunum, frjálsum félagasamtökum o.s.frv. Fyrir hönd þingmannanefndarinnar vil ég þakka hve vel hefur gengið að fá frumvarpið í vinnu þingsins, ég þakka allsherjar- og menntamálanefnd kærlega fyrir mjög góða vinnu (Forseti hringir.) og góðar breytingartillögur sem bæta mál sem gott er fyrir. Við í Bjartri framtíð styðjum málið vitaskuld heils hugar.