145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:18]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er talsvert á sig leggjandi til þess að ná þverpólitískri niðurstöðu þegar þverpólitískur vilji er til staðar til þess að leiða mál farsællega til lykta. Það er þakkar- og aðdáunarvert að menn skuli hvar í flokki sem þeir standa hafa verið tilbúnir að teygja sig yfir pólitískar skotgrafir í nafni fagmennsku, mannvirðingar og mannúðar til þess að bæta umgjörðina um þennan veigamikla málaflokk.

Ég mun ljá frumvarpinu eins og aðrir stuðning minn. Ég hef hins vegar athugasemdir við það að ekki skuli hafa verið stigið það skref að skilja á milli hagsmuna og réttargæslu innflytjenda og flóttamanna annars vegar og hins vegar rannsóknar- og úrskurðarhlutverks Útlendingastofnunar. Ég vara við því og tel að það sé ekki farsælt að hafa öll ráð útlendingsins á hendi einnar stofnunar. Ég hefði talið stjórnsýslulega réttara og meira í anda góðra stjórnsýsluhátta að skilja þar að. Ég mun þess vegna greiða atkvæði sérstaklega (Forseti hringir.) og sitja hjá við 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins, en styð það að sjálfsögðu að öðru leyti og óska þinginu til hamingju með þennan áfanga.