145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er akkúrat í anda vinnunnar í kringum þessa löggjöf sem maður getur tekið undir með hverjum einasta hv. þingmanni sem hér hefur tjáð sig um frumvarpið. Mig langar líka að minna á það, það hefur ekki komið fram, að haft var mjög víðtækt samráð í vinnunni, þessari mjög sérstöku vinnu sem ég vona að fái að halda áfram, bæði að þingmannanefndin haldi áfram störfum og ég vona að fleiri ráðherrar taki upp þessa leið til þess að vinna þverpólitískt áður en stórir málaflokkar eru endanlega unnir í ráðuneytum. Mér finnst mjög mikilvægt að þakka starfsfólkinu í innanríkisráðuneytinu sem hefur unnið ótrúlegt verk. Síðan vil ég líka nefna, af því að það hefur ekki komið fram enn þá, að mikið af þessari löggjöf er byggt á grunni laga sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vann að. Síðan vil ég líka segja að ég hefði viljað ganga lengra, en þetta er upphafið. Ég vil þakka (Forseti hringir.) þingheimi og ráðuneytinu og fyrrverandi og núverandi ráðherrum fyrir mjög góða vinnu.