145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:23]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Nú greiðum við atkvæði um frumvarp um útlendinga, heildarlög. Það er alveg augljóst að í frumvarpinu er margt mjög gott, sérstaklega það sem snýr að réttindum útlendinga, stjórnsýslunni og öðrum mikilvægum atriðum. Það hefur komið fram hér að þetta sé gjörbylting, þetta sé risamál, en afskaplega takmörkuð umræða hefur farið fram um þetta mál, bæði hér á þingi og úti meðal almennings. (Gripið fram í.) Þar var ég. Við ætlum að afgreiða þetta á síðasta degi. Það er ekki mikill bragur á því, það verður bara að segjast eins og er. Það hefur engin alvöruúttekt, af því að þetta er gjörbylting, verið gerð á því hvaða samfélagslegu áhrif þetta hefur. Við höfum kannski tíma til að gera það seinna. Við erum að fara aðra leið að mörgu leyti (Forseti hringir.) en aðrar þjóðir. Hvaða áhrif hefur það? Að mörgu leyti allt aðra leið. (Forseti hringir.) Ég ætla að rjúfa samstöðuna, eins og frumvarpið er núna mun ég ekki greiða því atkvæði.