145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

húsaleigulög.

399. mál
[12:39]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka framsögumanni málsins, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrir vinnu hennar við málið og hv. velferðarnefnd fyrir alla vinnuna. Eins og fram kom hjá framsögumanni er markmið þessa frumvarps að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri samskiptum á milli leigjenda og leigusala til að minnka ágreiningsefni. Eitt atriði sem mig langar til að vekja athygli á er að ein stærsta réttarbót frumvarpsins er að breytingar verða á lögum um nauðungarsölu. Breytingin snýr að því að við nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði sem leigjandi hefur til eigin nota samkvæmt leigusamningi skuli hann þrátt fyrir nauðungarsöluna njóta réttar til að vera í leiguhúsnæðinu áfram út leigutíma, en þó aldrei lengur en 12 mánuði frá samþykki boðs gegn greiðslu leigu sem að mati sýslumanns er hæfileg húsaleiga. Þetta er afar mikilvæg réttarbót í að auka búsetuöryggi og vonandi sjáum við færri fréttir um það að fólk og einstaklingar og fjölskyldur séu borin út einungis örfáum dögum eftir að nauðungarsala fer fram.