145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

lögreglulög.

658. mál
[12:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu máli. Þetta er skref í rétta átt, skref sem ég vona að verði sem stærst. Þó vil ég halda því til haga, eins og ég hef gert áður, að ég mundi vilja ganga lengra, samanber þingsályktunartillögu, sem er 12. mál hér á þinginu, sem við píratar lögðum fram seinasta haust. Ég fagna þessu máli og fagna sérstaklega þróuninni í viðhorfum á Íslandi, líka hjá stjórnvöldum, gagnvart þeirri staðreynd að það þarf að hafa eftirlit með stofnunum sem hafa valdheimildir. Lögreglan er eina stofnunin á landinu sem hefur heimildir til að beita líkamlegu valdi. Það er nauðsynlegur þáttur í okkar samfélagi, því miður, en því mikilvægara er að hafa skýrt eftirlit með slíku valdi alveg eins og lýðræði er mikilvægt til að halda aftur af valdinu sem hér er. Ég fagna þessu máli enn og aftur og vona að þetta skref sé sem stærst en segi líka: Það er allt í lagi að stíga stærri skref og ég vænti þess fastlega að þau verði stigin í framtíðinni.