145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró).

788. mál
[14:12]
Horfa

Frsm. minni hluta (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá minni hluta í utanríkismálanefnd vegna tillögu til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamnings við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands.

Einhver stærstu mistök undanfarinna áratuga á sviði utanríkismála áttu sér stað við lok kalda stríðsins árið 1989 þegar ákveðið var að framlengja líf Atlantshafsbandalagsins í stað þess að láta það fara sömu leið og hitt hernaðarbandalag eftirstríðsáranna, Varsjárbandalagið. Þar glataðist gott tækifæri til að byggja upp nýtt öryggiskerfi sem stuðlaði að lýðræði, friði og stöðugleika í Evrópu.

Sterk hagsmunaöfl unnu hins vegar gegn því að Atlantshafsbandalagið væri lagt niður þegar hinn yfirlýsti andstæðingur var úr sögunni. Réðu þar miklu hagsmunir vopnaframleiðenda, enda hefur bandalagið innan sinna raða mörg af mestu vopnaframleiðslulöndum heims og leggur ríkar skyldur á herðar meðlima sinna varðandi framlög til vígbúnaðar og hermála.

Útþenslustefna Atlantshafsbandalagsins til austurs hefur raskað stöðugleika í Evrópu. Óumdeilt er til að mynda að Rússland telur öryggi sínu ógnað með vígvæðingu upp við landamæri sín og uppsetningu eldflaugavarnarkerfis Atlantshafsbandalagsins. Það hefur aftur verið vatn á myllu þjóðernissinnaðra popúlískra stjórnmálaafla í Rússlandi. Óstöðugleiki í Austur-Evrópu skrifast því á rússnesk stjórnvöld, Atlantshafsbandalagið og forusturíki þess.

Skömmu fyrir aldamótin 2000 breytti Atlantshafsbandalagið stefnu sinni á þann hátt að nú beitir það sér í auknum mæli utan landamæra sinna. Má þar nefna beina og óbeina þátttöku í styrjöldum og skærum í Afríku og Asíu. Afleiðingar þessara íhlutana hafa reynst skelfilegar fyrir íbúa viðkomandi landa og eiga stóran þátt í þeirri flóttamannabylgju sem heimurinn er nú vitni að.

Fulltrúi minni hlutans í utanríkismálanefnd áréttar þá stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að Atlantshafsbandalagið sé veruleg ógn við öryggi og frið í heiminum. Hagsmunum Íslands væri best borgið með tafarlausri úrsögn úr bandalaginu. Á sama hátt verður ekki séð að enn frekari stækkun bandalagsins geti verið jákvætt skref í öryggismálum Evrópu. Má þar í raun algjörlega láta liggja milli hluta að það sé Svartfjallaland í þessu tilviki sem hér um ræðir. Það er ekki innganga Svartfjallalands per se sem við leggjumst á móti heldur einfaldlega stækkunin á NATO. Vænlegra er að gæta friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum með því að efla stofnanir eins og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, og með endurskipulögðu öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Með vísan í þessa afstöðu munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sitja hjá við afgreiðslu málsins líkt og þeir hafa áður gert þegar um sambærileg mál um stækkun NATO hafa verið að ræða á Alþingi.