145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró).

788. mál
[14:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir ræðu hennar. Hún ítrekar auðvitað þá afstöðu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft frá upphafi, að leggjast gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ég ber virðingu fyrir þeirri afstöðu þótt ég sé henni ekki sammála. Ég lít svo á að þátttaka okkar í starfsemi Atlantshafsbandalagsins sé mikilvæg, bæði vegna okkar eigin öryggis og eins sem framlag til öryggis og stöðugleika í Evrópu.

Með sama hætti átta ég mig ekki alveg á því af hverju Vinstri hreyfingin – grænt framboð er að fetta fingur út í það að lönd sem árum saman hafa sóst eftir aðild fái aðild að bandalaginu. NATO hefur ekki verið lokaður klúbbur heldur opinn fyrir nýjum aðildarríkjum. Staðreyndin hefur verið sú að nýfrjálsríki í Austur-Evrópu hafa talið það gríðarlega mikilvægt fyrir öryggishagsmuni sína að eiga aðild að bandalaginu og hafa þess vegna sótt það hart að komast þar inn.

Ég er þeirrar skoðunar að jafnvel þótt Vinstri hreyfingin – grænt framboð geti haft sína afstöðu á fullkomlega heiðarlegum og góðum forsendum fyrir því að Ísland eigi að standa utan Atlantshafsbandalagsins, þá finnst mér alveg ástæðulaust að gera athugasemdir við það að önnur ríki, sem hafa eins og ég segi sótt það mjög hart um langt árabil að fá aðild að bandalaginu, komist þar inn.