145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró).

788. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. minni hluta (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Líkt og ég gat um í ræðu minni, auk þess að vera á móti aðild okkar Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu, þá teljum við það ekki vera skref í átt að friðvænni heimi að stækka bandalagið. Líkt og ég sagði í ræðu minni þá snýst það að við ætlum að sitja hjá við afgreiðslu málsins ekki um að við séum eitthvað á móti Svartfjallalandi per se, heldur snýst þetta um þá afstöðu okkar að við erum á móti stækkun bandalagsins. Við teljum það ekki gott skref í átt að friði. Með nákvæmlega sömu rökum sátu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs einnig hjá árið 2009, held ég það hafi verið frekar en 2008, þegar Króatía og Albanía gengu í Atlantshafsbandalagið og það var stækkað. Það var ekki vegna einhverrar andúðar í garð Króatíu og Albaníu, heldur snýst þetta um prinsippafstöðu okkar í málinu. Þess vegna sitjum við hjá við afgreiðslu málsins.