145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró).

788. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. minni hluta (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í umræðum í þessum þingsal komið berlega í ljós að sýn og skoðanir okkar hv. þm. Birgis Ármannssonar á það hvernig varnar- og öryggismál okkar þjóðar sem og þjóða heimsins verða best tryggð eru ólíkar. Þar erum við einfaldlega ósammála og vinnum að því sem við teljum best og réttast í þeim efnum með gerólíkum hætti. Ég er auðvitað áfram á þeirri skoðun að það sé heiminum til heilla þegar kemur að öryggi og friði að við vinnum að því með öllum leiðum að draga úr her- og vígvæðingu. Hluti af því er að vinda ofan af og svo hreinlega leggja niður bandalög á borð við Atlantshafsbandalagið.