145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[14:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort sá þingmaður sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir beindi tali sínu til ætlar að vera sú dula að sitja undir ásökunum hennar hér í fyrri parti ræðunnar án þess að svara því. Ræða hv. þingmanns var mjög merkileg. Ég tel að ekki sé annað hægt en að fara vel yfir hana hér svona fram eftir degi í ræðum þeirra sem áhuga hafa á þessum málum. Ég hef að þessu sinni nokkrar örfáar og einfaldar spurningar til hv. þingmanns.

Fyrsta spurningin er þessi: Er hún á móti því að sú rannsókn sem umboðsmaður hefur lagt til fari fram? Í öðru lagi: Er hún að segja okkur að umboðsmaður sé að misnota stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Í þriðja lagi: Telur hún að tilefni þessarar rannsóknar sé pólitískt og runnið undan rifjum annarra stjórnmálaflokka til að sverta Framsóknarflokkinn?