145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[14:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að koma hér í andsvar við mig. Það skal upplýst að þegar atkvæðagreiðslan um rannsókn á fyrri einkavæðingunni fór fram árið 2012 var virðulegur þingmaður fjarverandi. Ég var stödd hér í þingsal og greiddi ekki atkvæði með þessu og minni á að það voru einungis 24 þingmenn sem greiddu atkvæði með því að þessi rannsókn skyldi fara fram. Sjö þeirra sitja á þingi og ætla ég í annað sinn að lesa þá upp: Það eru hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Bjarnadóttir. Aðrir hafa fallið frá, hlutu ekki kjör í síðustu alþingiskosningum eða hafa hætt af öðrum ástæðum.

Hér voru bornar upp þrjár spurningar. Í fyrsta lagi var spurt hvort ég væri á móti því að þessi rannsókn fari fram. Auðvitað ekki. En ég vil að rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari fari fram á sama tíma. Að mínu mati, eftir það sem ég hef lesið, er málið að fullu upplýst og allir rannsóknarþættir ljósir og búið að ljúka rannsókninni. En ef þingmenn vilja eyða skattfé landsmanna á þann hátt að fara einu sinni enn í rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri þá verður svo að vera, ég fylgi meiri hlutanum í því. Í öðru lagi var spurt hvort ég liti svo á að umboðsmaður Alþingis væri að misnota vald sitt. Að einhverju leyti má segja að það sé alla vega á gráu svæði hvað það varðar að bera hér inn í þingið óútskýrðar kröfur frá huldumanni úti í bæ um að eitthvað hafi misfarist í rannsókninni, sérstaklega í ljósi þess að umboðsmaður sat sjálfur í rannsóknarnefnd (Forseti hringir.) Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna; það er mjög skrýtið að þetta skuli koma frá honum. Þriðju spurningunni, virðulegi forseti, verð ég að svara í seinna svari.