145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[14:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að fóstbróðir hv. þm. Ögmundar Jónassonar skuli koma hér í andsvar við mig, enda hafa þeir setið ansi lengi á þingi og kunna hina pólitísku refskák mjög vel. Ég ætla ekkert að leggja mat á það hvort þessi þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir sé pólitísk árás gegn Framsóknarflokknum. En ég hef farið yfir það í máli mínu og rökstutt það mjög vel að rannsóknir sem Alþingi fer í eiga að vera það vel útbúnar að ekki sé hægt að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum. Svo getur fólk lesið það í það sem ég er að segja varðandi það.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson greip í orðið „herra trúr“ eða „herra Guð“ eða eitthvað slíkt; umboðsmaður Alþingis hefur öll völd og fjármagn til að fara í frumkvæðisrannsóknir. (ÖS: Nei, nei.) Hér hrópar hv. þm. Össur Skarphéðinsson fram í, greinilega búinn að kynna sér málið mjög vel. (ÖS: Ég tók þátt í umræðunni.) Var hv. þingmaður kannski með í „skúespilinu“ þegar ákveðið var að leggja fram þessa þingsályktunartillögu? Ég bara spyr. Ég bara spyr, því að ef umboðsmaður Alþingis kemst að einhverju þá hefur hann allar heimildir til að fara í frumkvæðisathuganir varðandi hin og þessi mál. En hér er ákveðið að koma með þetta inn í þingið og rannsaka það hér.

Um seinnihlutaandsvar þingmannsins, hvort ég hafi nokkuð fyrir mér í því hvort þingmenn séu ekki til í að fara í rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari, þá er því til að svara að ég lagði fram tillögu um slíkt þegar einkavæðingin fyrri var samþykkt, breytingartillögu, að farið yrði í slíka rannsókn. Hvað gerði þingheimur á síðasta kjörtímabili? Felldi að sjálfsögðu þá breytingartillögu, því að hann kærði sig ekkert um það þá frekar en nú að farið yrði í að rannsaka hvað gerðist á árinu 2009 þegar bankarnir voru afhentir kröfuhöfum á einni nóttu án útboðs eða án nokkurs hlutar, (Forseti hringir.) án einkavæðinganefndar og ekki neitt. Það liggur hér undir, virðulegi forseti. Þar eru peningarnir. Þar erum við að tala um hundruð milljarða, ekki bara nokkra milljarða.