145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[15:00]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir bar í ræðu áðan dylgjur á borgara einn sem taldi að í þessu máli lægi nokkuð ljóst fyrir að hinn meinti kaupandi væri ekki sá er upp var gefinn. Hún bar á þennan borgara sem hún nafngreindi, Vilhjálm Bjarnason, að hann hefði farið með dylgjur.

Nú vill svo til að þessi borgari, Vilhjálmur Bjarnason, er sennilega sá sem hér stendur. Fyrir tíu árum lagði ég fram gögn sem rötuðu til ríkisendurskoðanda í þessu máli og það voru ekki dylgjur. Ég hef aldrei farið með dylgjur í þessu máli og ég óska eftir því að það liggi a.m.k. fyrir í þingtíðindum að ég hafi borð hönd fyrir höfuð mér. Ég hef aldrei farið með dylgjur í þessu máli, ég sagði ósköp einfaldlega að sá sem upp er gefinn kaupandi geti ekki verið kaupandinn.

Nú fer fram rannsókn á því máli og ég vil hafa það sem sannara reynist fyrir þennan borgara, Vilhjálm Bjarnason. (Gripið fram í: Afsökunarbeiðni.)