145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[15:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við séum að ganga til atkvæða um þessa tillögu. Frá því í nóvember 2012 hefur legið fyrir ályktun Alþingis um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Okkur hafa borist í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd trúverðugar ábendingar um að frekari upplýsinga kunni að vera hægt að afla um þessa sölu. Það er mikilvægt í framhaldinu að velta við hverjum steini í því máli. Við verðum að læra af þeirri hörmungaratburðarás sem þar átti sér stað. Á næstu árum blasir við mikil sala ríkiseigna. Ef menn átta sig ekki til fulls á þessari atburðarás og hættunum sem þar kunna að leynast getum við gert margvísleg mistök við sölu opinberra eigna í framtíðinni þannig að það er mjög mikilvægt að við höldum áfram þessari rannsókn og veltum við hverjum steini.