145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[15:35]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við séum vonandi að samþykkja þetta mikilvæga mál. Í því samhengi tek ég fram að þetta er endahnykkurinn á áralangri vinnu með aðkomu fjöldamargra innan úr pólitíkinni, utan úr málaflokkunum, stofnunum, ráðuneytum o.s.frv. Ég þakka sérstaklega fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra, hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi innanríkisráðherra, fyrir vinnu sem hófst á hans tíma, hæstv. innanríkisráðherra Ólöfu Nordal og hæstv. velferðarráðherra Eygló Harðardóttur fyrir þeirra aðkomu að þessu máli. Síðan vil ég þakka sérstaklega samþingsmönnum sem störfuðu í þverpólitískri þingmannanefnd um málið og leggja til og leggja áherslu á að þingmannanefndin starfi áfram og fylgi málaflokknum eftir. Það er ekki hægt annað en að leggja líka áherslu á það að (Forseti hringir.) réttarbótin sem felst í þessum lögum krefst þess að málaflokkurinn sé almennilega fjármagnaður og vel haldið utan um hann á vegum framkvæmdarvaldsins.