145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[15:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ítreka fyrirvara mína hérna sem ég hef nefnt áður. Ég vil hins vegar nefna það í sambandi við breytingartillöguna á þskj. 1420 að við höfum þegar greitt atkvæði um þær greinar sem þar er fjallað um, 114. og 115. gr. frumvarpsins. Við höfum þegar greitt atkvæði með þeim greinum, þar á meðal sá sem hér stendur. Breytingartillagan varðar hins vegar það að þessar tvær greinar taki gildi strax en ekki um næstu áramót. Stór hluti af því að ég treysti mér til að greiða atkvæði með frumvarpinu í heild er sú staðreynd að gildistakan er við næstu áramót. Því ætla ég að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um breytingartillöguna á þskj. 1420, en ítreka þó að við höfum þegar greitt atkvæði um þessar tvær greinar, þar á meðal sá sem hér stendur.

Að lokum bara fagna ég því eins og aðrir hafa gert að við séum komin á þennan stað og óska þinginu til hamingju með þessi vinnubrögð. Megi þau oftar verða á sömu nótum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)