145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[15:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim tveim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um þessi mál og tek undir með síðasta ræðumanni hvað varðar atkvæðagreiðslu um breytingartillögu sem hér kemur fram varðandi 114. og 115. gr. Við vinstri græn komum til með að sitja hjá við þær greinar enda búin að greiða þeim í sjálfu sér atkvæði í heildarfrumvarpinu eins og hér kom fram en ekki í þeirri breytingu sem hér er verið að leggja til á gildistöku.

Það er allra mikilvægast í þessu máli að áfram verði eitthvert eftirlit í formi þingmannanefndarinnar þar sem hægt verður að fylgja því eftir í framkvæmd að inntak laganna skili sér í framkvæmdinni. Mér finnst það mjög mikilvægt í ljósi þess að við teljum að hér sé framkvæmdin fyrst og fremst bágborin, lögin ekki nógu skýr í kringum hana og ekki nógu góð. Við erum að reyna að laga rammann, en það er virkilega mikilvægt að því verði fylgt eftir með fjármunum og að eftirlit verði áfram í höndum þingmannanefndarinnar sem kann málið hreint ansi vel.