145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

húsnæðisbætur.

407. mál
[15:46]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að þakka hv. velferðarnefnd fyrir alla vinnuna og formanni nefndarinnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir að stýra nefndinni í gegnum öll þessi frumvörp. Ég þakka öllum þeim aðilum sem komu að vinnslu þessara mála.

Hér er um afar mikilvægt mál að ræða, verið að auka húsnæðisbætur til fólks á leigumarkaði, og er það til mikilla bóta. Þær breytingar sem hv. velferðarnefnd gerði á málinu voru m.a. að stuðla að því að þessi stuðningur rynni í ríkari mæli til tekjulægri leigjenda án þess þó að fórna því markmiði frumvarpsins að það nái til breiðari tekjuhóps en gert er ráð fyrir í núgildandi húsaleigubótakerfi.

Að lokum óska ég hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur til hamingju með að þetta mikilvæga mál sé að verða að lögum.