145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

húsnæðisbætur.

407. mál
[15:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þrjú frumvörp eru komin með afgreiðslu þingsins í þessu máli. Með húsnæðisbótunum, með þeim breytingum sem hv. velferðarnefnd hefur gert, er svo sannarlega komið til móts við mjög góðar athugasemdir sem komu fram við málið í vinnslu þingsins. Hér er farin miðjuleið og gerð málamiðlun. Ég vil sérstaklega nefna hér hversu ánægjulegt það er að búið sé að ná samkomulagi við sveitarfélögin um að sérstakur húsnæðisstuðningur á grundvelli félagslegra aðstæðna einstaklinga verði núna skylda í öllum sveitarfélögum, að sveitarfélög verði líka með samræmdar reglur varðandi biðlista eftir félagslegu húsnæði og muni taka að sér að styðja sérstaklega við þá sem eru undir 18 ára og þurfa að búa fjarri foreldrahúsum vegna náms. Því til viðbótar vildi ég nefna að sérstök nefnd verður skipuð sem mun fylgjast með þeim breytingum sem við erum núna að fara í gegnum og vonandi (Forseti hringir.) leiða til þess að allt sem við vonumst til að gerist með þessum breytingum verði að raunveruleika áfram í góðri samvinnu. Takk kærlega fyrir.