145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. velfn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar sem öll nefndin stendur að, en Steingrímur J. Sigfússon ritar undir með fyrirvara.

Málið er stórt og varðar það að stýra eða setja hámarksgreiðslur í kerfinu og reyna að koma inn ákveðinni þjónustustýringu. Ég vil byrja á svo ég gleymi því ekki að þakka fyrir mjög gott samstarf í nefndinni og einnig að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir aðkomu hans að nefndarstörfum þegar á þurfti að halda til að fá nánari skýringar undir lok vinnslu málsins.

Hér er verið að leggja til breytingar á ákvæðum laga um sjúkratryggingar og greiðslu sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu. Meginmarkmiðið er að reyna að tryggja að þeir sem eru veikastir greiði ekki það háar fjárhæðir fyrir heilbrigðisþjónustu að ekki verði við ráðið líkt og við, því miður, höfum séð dæmi um í samfélaginu að undanförnu.

Í þessu þingmáli má segja að bakgrunnur þess sé nefnd sem skipuð var til að kanna hvort hægt væri að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar- og sjúkraþjálfunarkostnað og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag. Formaður þeirrar nefndar var fyrrverandi þingmaður og félagi okkar hér, Pétur H. Blöndal. Það er auðvitað rétt að halda minningu hans til haga þegar við fjöllum um þetta mál, enda var hann mikill talsmaður þess að koma á greiðsluþaki og reyna að ná utan um þann kostnað sem sjúkratryggðir þurfa að leggja í vegna heilbrigðisþjónustu.

Gert er sérstaklega ráð fyrir því að börn með tilvísun frá heilsugæslu- eða heimilislækni greiði ekkert gjald fyrir komu til sérgreinalæknis utan sjúkrahúsa og á göngudeild sjúkrahúsa. Mánaðarleg hámarksgreiðsla fyrir heilbrigðisþjónustu verði almennt 33.600 kr., en 22.400 kr. fyrir aldraða, öryrkja og börn. Það eru sem sagt tveir hópar.

Í frumvarpinu er líka fjallað um tilvísanir og tilvísunarkerfi og hér er lögð til heimild til að greiða hærra gjald eða ákvarða hærra gjald fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna ef hún er sótt án tilvísunar frá heilsugæslustöð eða heimilislækni. Við ræddum þetta talsvert í nefndinni, en við erum á þeirri skoðun að mikilvægt sé að heilsugæslan verði jafnan fyrsti viðkomustaður sjúklinga, enda er það almennt þannig að hún er best til þess fallin að beina sjúklingum á rétta þjónustu og þannig telst það, hlýtur að vera, best nýting á fjármunum ríkissjóðs að stýra þjónustunni með þessum hætti. Við gerum grein fyrir því í nefndarálitinu. Við áttuðum okkur hins vegar á því að efla þarf heilsugæsluna svo hún ráði við þetta hlutverk sitt og fjölluðum talsvert um það í vinnunni í nefndinni og eins í nefndarálitinu.

Fyrirhugaðar eru ráðstafanir til að styrkja heilsugæsluna. Hér liggur frammi þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021, sem er í þinglegri meðferð. Þar er ráðgert að framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa aukist um nærri 4,6 milljarða frá og með árinu 2016, eða um 12%. Það er alveg ljóst að í tillögunni felst nokkurt svigrúm til eflingar á heilsugæslunni. Hins vegar fylgja frumvarpinu, lögfestingu þess, ákveðin verkefni sem þarf að setja kraft í að klára. Þess vegna var það skoðun nefndarinnar að innspýtingu þurfi í heilsugæsluna á þessu ári til að ná að undirbúa innleiðingu frumvarpsins. Það væri hægt með því að fjölga læknum, hjúkrunarfræðingum og stuðla að því að allt kerfið sé tilbúið þegar gildistakan á sér stað, en ég vil vekja strax athygli á því að við leggjum til að breyta gildistökunni þannig að lögin taki gildi 1. febrúar 2017 svo hægt sé að undirbúa málið vel í kerfinu.

Gagnrýnt var nokkuð fyrir nefndinni að greiðsluþátttakan næði ekki til allrar heilbrigðisþjónustu. Þannig eru til dæmis tannlækningar, sálfræðiþjónusta, ferðakostnaður og hjálpartæki ekki innan þessa kerfis. Við í nefndinni ræddum þetta nokkuð. Við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni verði fleiri flokkar sem falli undir þetta þak og jafnframt að lyfjagreiðslukerfið og þetta greiðsluþátttökukerfi renni saman í eitt greiðsluþátttökukerfi í framtíðinni. En hér er samt verið að stíga það skref að sjúkra-, iðju- og talþjálfun er felld undir almenna kerfið. Fram kom hjá ráðuneytinu að stefnt er að því að fella fleiri tegundir heilbrigðisþjónustu undir kerfið. Stefnan er því komin, það er verið að stefna í rétta átt en ekki er hægt að stíga stærri skref að svo stöddu. En ljóst er hvert hugur manna, að minnsta kosti í ráðuneytinu og eins í velferðarnefnd, stendur.

Við ræddum talsvert það hámarksgjald sem fram kemur í drögum að reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Nefndin var sammála um að það gjald sé of hátt, sérstaklega þar sem það nær ekki til alls heilbrigðiskostnaðar. En ljóst er að til þess að auka eða lækka hámarksgjaldið þarf aukið fé í málaflokkinn.

Við ræddum þetta nokkuð og fengum undir lok yfirferðar nefndarinnar heilbrigðisráðherra á fund til að ræða sérstaklega fjárhagshliðina. Ráðherra greindi okkur í nefndinni frá áformum sínum um styrkingu heilsugæslunnar. Þetta er eiginlega tvíþætt, það er styrking heilsugæslunnar til að undirbúa málið og innleiðingu þessara breytinga og svo hins vegar þökin sjálf og kostnaður sjúkratryggðra.

Ráðherra greindi okkur frá áformum um styrkingu heilsugæslunnar á þessu ári, hugmyndum um fjölgun lækna og hjúkrunarfræðinga hjá heilsugæslunni og hugmyndum um að styrkja sálfræðiþjónustu heilsugæslunnar til samræmis við nýsamþykkta stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem við samþykktum í þinginu ekki alls fyrir löngu. Áætlaður kostnaður við þær ráðstafanir er á bilinu 300–400 millj. kr. og ljóst er í hugum okkar nefndarmanna að þetta eru fjármunir sem þurfa að koma til í næstu fjáraukalögum.

Jafnframt kom fram í máli ráðherrans að til stendur að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minni en gert er ráð fyrir í fyrrnefndum drögum að reglugerð sem nefndin kynnti sér. Ekki er hægt að svo stöddu að segja nákvæmlega fyrir um hvert útreikningar á mögulegum niðurstöðum leiðir okkur, en ráðherrann taldi rétt að miða við að almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra væru ekki hærri en 50.000 kr. á ári. Nefndin fagnaði þessum yfirlýsingum ráðherrans og það kemur fram í nefndarálitinu. Við teljum okkur hafa fullvissu fyrir því að auknir fjármunir komi til í fjáraukanum fyrir þetta ár til að undirbúa heilsugæsluna undir breytingarnar og síðan í fjárlögum ársins 2017 sem leiðir til þess að heilsugæslan verði styrkt og almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr.

Það eru nokkrar breytingartillögur, ég var búin að fara yfir breytingartillögurnar varðandi gildistökuna, en aðrar tillögur skýra sig sjálfar og ég geri ráð fyrir að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem ritar undir álit þetta með fyrirvara geri grein fyrir þeim fyrirvara.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir ritar undir nefndarálitið, var fjarverandi við afgreiðsluna en notar reglur þingskapa til að skrifa undir.

Aðrir hv. þingmenn sem skrifa undir er sú sem hér stendur, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Ásmundur Friðriksson, Elsa Lára Arnardóttir, Páll Valur Björnsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.

Við vonumst til þess að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér greinir.