145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:22]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins í byrjun bregðast við ummælum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann lýsir aðdraganda þess að málið leystist. Þar finnst mér halla aðeins á alla þá sem komu að því að ná niðurstöðu í málið. Það er full ástæða til að þakka formanni velferðarnefndar og framsögumanni málsins, hv. þingmönnum Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Unni Brá Konráðsdóttur, sem í rauninni hafa unnið daga og nætur síðustu vikur í þessu máli. Það er fyrst og fremst þeim tveimur að þakka að samkomulag náðist í málinu. En ég get auðvitað þakkað hæstv. heilbrigðisráðherra líka fyrir að koma til móts við mjög eindregnar óskir stjórnarandstöðunnar í nefndinni og taka sönsum, svo að það sé sagt á mannamáli, því að þegar frumvarpið kom upphaflega inn í þingið gagnrýndum við það mjög eindregið, stjórnarandstöðuþingmenn og þá ekki síst sú sem hér stendur, að þetta væri í raun og veru tilfærslukerfi, það væri aðeins verið að gera ráð fyrir því að flytja kostnað af einum hópi sjúklinga yfir á annan. Ástæða þess var sú að það vantaði fjármuni með þessum ráðstöfunum og beinlínis sagt í greinargerð með frumvarpinu að ekki væri gert ráð fyrir því að breyta heildarkostnaði vegna greiðsluþátttökukerfisins.

Við reistum strax mjög stífar varúðarskorður við þessu. Síðan styrktumst við í þeirri trú þegar gestir fóru að koma fyrir nefndina og lýsa undirmönnun heilsugæslunnar og fjársvelti hennar og hvaða erfiðleikum það væri háð fyrir heilsugæsluna að ætla að fara að rísa undir tilvísunarkerfi sem er í raun og veru forsenda þess að þetta geti náð almennilega fram að ganga. Það var líka mjög ákveðin gagnrýni á það að t.d. sálfræðikostnaður, tannlækningar, ferðakostnaður og hjálpartæki væru ekki inni í þessu.

Samfylkingin hefur frá fyrstu ræðu í þessu máli lagt mjög þunga áherslu á að meiri peninga þyrfti inn í kerfið og að fleiri ráðstafanir þyrfti til þess að þetta gæti þótt ásættanlegt.

En þá gerist það sem einstöku sinnum gerist og er þakkarvert og ánægjuefni, að stjórnarmeirihlutinn hlustaði í því máli. Það áttu sér stað mörg samtöl milli margra og þau samtöl áttu sér ekki bara stað í gær, en milliganga hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur var ábyggilega það sem réði úrslitum í því máli, ég þakka henni fyrir það, og dugnaður formanns velferðarnefndar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Ég þakka þeim báðum og ráðherranum.

Nú erum við í allt annarri stöðu, erum að horfa upp á allt aðra mynd en við gerðum þegar upphaflega var mælt fyrir málinu. Ráðherra hefur mætt á fund nefndarinnar og sagt að það muni koma á bilinu 300–400 millj. kr. viðbótarfjárframlag inn í kerfið. Það þýðir að greiðsluþakið, kostnaðarþakið sem var gert ráð fyrir að yrði 90 þús. kr., og okkur fannst náttúrlega allt of hátt, mun lækka niður í 50 þús. kr. á ári sem er mun ásættanlegra en það sem í stefndi.

Á þeirri forsendu, virðulegi forseti, er ég með á þessu nefndaráliti og við þingmenn Samfylkingarinnar erum því fylgjandi og staðráðin í að veita þá málinu brautargengi. Eins og við höfum alltaf sagt er mjög mikilvægt að hægt sé að koma böndum á heilbrigðiskostnað fólks. Hann hefur verið óheyrilegur á síðustu árum og við höfum fengið átakanlegar sögur af fólki með langt gengna sjúkdóma sem hefur tekið á sig mörg hundruð þúsund krónur í heilbrigðiskostnað. Það sjá náttúrlega allir sanngjarnir menn að það þarf að stemma stigu við því.

Við verðum að stíga fastar á fjöl varðandi það að koma hér á siðlegu heilbrigðiskerfi sem tekur mið af almannahagsmunum og er þannig hannað að almennir borgarar, óháð búsetu og efnahag, eigi þess kost að geta nýtt sér bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu, eins og raunar sjúklingalögin gera ráð fyrir. Við verðum að geta staðið við þau fyrirheit. Það er auðvitað markmiðið. Komist síðan Samfylkingin og jafnaðarmenn að stjórnvelinum eftir næstu kosningar, sem við skulum vona að guð gefi, getum við haldið áfram að laga og bæta þetta kerfi, vegna þess að við stefnum að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Það er markmiðið.

Hér er verið að stíga gott skref og enginn skaði skeður við þær breytingar sem er verið að gera, þvert á móti leggja þær góðan grunn að því sem vonandi verður framhaldið; gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta.