145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek svo sannarlega undir síðustu orð hv. ræðumanns og það skulum við vona að við séum einmitt að taka talsvert skref í áttina að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.

En vegna upphafsorða hv. þingmanns tel ég mig síður en svo hafa gert lítið úr hlut eins eða neins þegar ég einfaldlega rakti hversu tæpt þetta stóð hér í gær og fram undir kvöld, hversu tæpt málið stóð og hversu seint niðurstaðan fæddist og fundarhöld gærdagsins í því sambandi. Ég sagði sannleikann í þeim efnum, að sem betur fór hafðist þetta en það var komið fram á elleftu stundu þegar rofaði til í málinu og ljóst að það mundi ná afgreiðslu á þessu vori, sem er auðvitað ákaflega mikilvægt. Formaður nefndarinnar, framsögumaður, minni hlutinn í nefndinni, meiri hlutinn í nefndinni, hæstv. ráðherra, allir eiga þakkir skilið fyrir þeirra framlag í þeim efnum.

Ég vil því ekki láta því ómótmælt að ég hafi verið að taka heiður af einum eða neinum með ummælum mínum, ég vona að ég hafi ekki skilist þannig og ég átti ekki að skiljast þannig því að það vil ég ekki gera. Ég ætla ekki að eigna mér annarra hlut í þessum efnum, tel mig ekki þurfa þess og ekki hef ég sett neitt um slíkt á Facebook-síðu mína, enda held ég engri slíkri úti. (Gripið fram í: Þú verður að fara að stofna hana …)