145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:36]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég kem upp til að taka undir með þeim sem hafa rætt þetta mál á undan mér og farið í gegnum breytingarnar og annað sem kom fram í nefndinni og var samþykkt að lokum. Frumvarp byggir á vinnu nefndar sem var skipuð fyrir tveimur árum síðan og mikil vinna var lögð í það. Hér reyndu menn einhvern veginn að eigna sér heiðurinn af því hvernig niðurstaðan varð að lokum. Ég held að hún hafi verið samspil margra þátta og ekki síst vegna ótrúlegrar þrautseigju hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, sem er framsögumaður málsins, og formanns nefndarinnar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Það kom strax fram þegar maður las umsagnir um málið að margir voru á móti því og fannst þetta ekki geta gengið fyrst ekki voru settir peningar í það, að heilsugæslan mundi aldrei ráða við það verkefni sem hún ætti að inna af hendi samkvæmt frumvarpinu. Það komu miklar gagnrýnisraddir fram og þær voru samhljóma því sem margir nefndarmenn komu fram með á sínum tíma í nefndinni, eins og t.d. þetta.

Við í Bjartri framtíð settum okkur aldrei upp á móti þessu máli, okkur fannst það mikilvægt fyrsta skref í rétta átt en svo þegar leið á runnu á mann tvær grímur þegar maður sá að þetta gæti ekki gengið út af skorti á fjármagni. Á síðustu tveimur vikum hafa þeir hv. þingmenn sem ég nefndi áðan unnið ötullega að því að reyna að fá meiri pening inn í kerfið til þess að menn gætu sæst á niðurstöðu. Þess vegna var gærdagurinn mjög ánægjulegur og sú niðurstaða sem kom inn og að hæstv. heilbrigðisráðherra skyldi koma á fund okkar og tilkynna okkur að þessi pottur inn í heilsugæsluna stæði til og síðan að lækka þökin á næsta ári. Það var gríðarlega ánægjulegt.

Við í Bjartri framtíð hefðum eins og fleiri viljað sjá gjaldfrjálsa þjónustu fyrir börn og að gjald eldri borgara og öryrkja yrði 1/3 af því sem aðrir borga. En það verða kannski næstu skref sem við tökum, þ.e. þeirra sem verða áfram á þingi, að vinna að því markmiði. Það hlýtur að vera mikið áherslumál hjá öllum að þetta verði þannig og við förum að líkjast meira samanburðarlöndunum okkar, sérstaklega hvað varðar gjaldfrjálsa þjónustu fyrir börn. Þjónusta fyrir börn verður þó nánast gjaldfrjáls með frumvarpinu ef heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður.

En það er margt sem maður hefði líka viljað sjá koma inn í heilsugæsluna eins og næringarfræðingar, sálfræðingar og fleiri. Það verða þá næstu skref. Við megum aldrei slá af kröfunum í þeirri viðleitni okkar að búa hér til öflugasta og besta heilbrigðiskerfi sem til er, við höfum alla kosti, mannauð og allt til þess. Það eru alltaf blessaðir peningarnir sem stoppa hlutina en með hækkandi sól og rísandi efnahag, þegar allt er að gerast eins og hefur komið fram í ræðum á þingi undanfarið, sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu að við gerum þetta. Það á náttúrlega að vera markmið okkar því að í nútímasamfélagi gengur samfélagið ekki vel ef heilbrigðiskerfið er halt. Við vitum hvernig það er úti á landi á ýmsum stöðum, ég bý t.d. á Suðurnesjum þar sem heilsugæslan er mjög illa stödd vegna skorts á læknum og aðstöðu til þess að taka á móti sjúklingum. Þess vegna lítur maður þennan pott mjög björtum augum og vonar að hann muni leysa vandann að einhverju leyti og undirbúa heilsugæsluna undir frekari móttöku sjúklinga.

Það er alveg ljóst að ef við erum með öflugt og sterkt heilbrigðiskerfi sem er rekið áfram af ríkinu og í samneyslunni þá mun hagvöxtur og framleiðni í landinu aukast, það er bara þannig. Þetta helst allt í hendur. En ég er gríðarlega ánægður og við í Bjartri framtíð með þessa niðurstöðu og erum á málinu. Ég hafði hugsað mér að vera með breytingartillögu en ákvað að gera það ekki. Við erum samhljóða um að þetta mál fari í gegn því að það er gott.

Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra, eins og var nefnt áðan, fyrir að sýna kjark og hafa hugrekki til að koma með þetta. Maður veit alveg hvar hugur hans er. Hann hefur sýnt það. Þetta er mjög ánægjulegur dagur.