145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga.

31. mál
[18:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka talsmanni málsins fyrir hönd hv. velferðarnefndar fyrir ræðuna. Ég tek undir hvert orð sem hann sagði hér um aðbúnað og stöðu fólksins sem þarf á þessari þjónustu að halda. Ég ætla ekki að halda langa ræðu, ég vil aðeins undirstrika að nú er staðan mjög alvarleg hjá þessum hópi. Svo virðist sem sveitarfélög og ríki geti ekki unnið saman eða talað saman greiðlega um hagi fólksins. Auk þess virðist eitthvert samskiptaleysi vera í velferðarráðuneytinu á milli félags- og húsnæðismálahlutans og svo heilbrigðishlutans. Þetta er óþolandi staða fyrir fólkið og fjölskyldur þess.

Breytingarnar sem nefndin gerir eru bara til bóta og ég fagna þeim. Ég geri aðeins athugasemdir við eitt atriði, mér finnst nefndin fá mjög langan tíma til að vinna. Hún á að skila niðurstöðum sínum 1. febrúar 2017 og ég bendi á að tíminn er sannarlega mikilvægur og kannski sérlega fyrir fólk í þeirri stöðu sem þarf á þjónustunni að halda, sem þarf á öndunarvél að halda til að geta lifað. Ég vona því að unnið verði hratt og vel að þeim atriðum sem þingsályktunartillagan fjallar um. Ég er ánægð með að málið skuli vera komið í gegn, það var fyrst lagt fram fyrir rúmu ári. Við erum að afgreiða það núna og niðurstöður nefndarinnar koma ekki síðar en 1. febrúar 2017, þannig að það þokast áfram. Við vonum að málið leysist með farsælum hætti og að fólkið sem núna er dæmt til að vera á sjúkrahúsi, nánast geymt á sjúkrahúsi, geti lifað heima hjá sér við þær aðstæður og þau mestu lífsgæði sem mögulegt er.

Enn og aftur, kærar þakkir fyrir þetta.