145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

mjólkurfræði.

40. mál
[18:14]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir starfið við þetta mál og lýsi yfir ánægju minni með að það sé komið fram.

Aðeins um námið, einhverjir lýstu furðu sinni yfir því að þarna væri verið að taka eina iðngrein fram yfir aðra. En eins og kom fram í umfjöllun um málið standa fleiri fámennar iðngreinar frammi fyrir sama vanda. Ég tel það mjög hættulegt ef við ætlum ekkert að gera í málinu og þótt við tökum þetta skref núna um mjólkurfræðina þá fylgja vonandi hinar fámennu iðngreinarnar á eftir. Við megum ekki loka á þessa gátt þaðan sem við fáum alla þessa þekkingu til landsins. Þetta er eina leiðin fyrir okkur til að fá þekkingu í þessum iðngreinum til landsins. Ég verð að hrósa líka tilvonandi nemendum í þessum iðngreinum sem ég hef hitt og rætt við við vinnslu málsins fyrir ótrúlega þolinmæði og þrautseigju og leggja það á sig að berjast fyrir því í öll þessi ár að reyna að komast í námið sem þau langar til. Ég legg áherslu á að hérna er lagt til að finna samning við erlenda skóla en ekki verið að skikka kerfið hér á landi til þess að kenna þessa grein innan lands eins og kemur fram í niðurlagi breytingartillögunnar, leita samninga við erlend yfirvöld og skóla um nám.

Ég fagna þessu mjög. Þetta er búin að vera frekar erfið fæðing og margt búið að gerast á ferli málsins þar sem m.a. fræðslunefndin var lögð niður og fagráð tók yfir vinnu hennar. Fundir með ráðuneytinu hafa engri niðurstöðu skilað, þannig að ég vona að þetta verði til þess að koma hreyfingu á málið. Miðað við allt það samstarf sem við eigum við Norðurlöndin sem er mjög gott, þá finnst mér ótrúlegt að ekki sé hægt að ná einhverri niðurstöðu í þessu máli og það þurfi í rauninni að fara í gegnum þinglegt ferli til þess, sem síðan er svo gagnrýnt.