145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla.

68. mál
[18:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög en vil þó þakka hv. formanni utanríkismálanefndar og þeim þingmönnum sem nefndina skipa fyrir að hafa ákveðið að taka þetta mál til umfjöllunar. Ég var ekki endilega viss um að sú yrði raunin þegar ég mælti fyrir því í haust, enda þótti mörgum hv. þingmönnum þá málið framandi og jafnvel líkjast vísindaskáldsögu. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umfjöllun nefndarinnar í gegnum þær umsagnir sem nefndinni hafa borist, vil ég þá sérstaklega vitna til umsagnar Amnesty International þar sem Íslandsdeild Amnesty International lýsir yfir stuðningi við þessa tillögu og bendir á í umsögn sinni, með leyfi frú forseta:

„Amnesty International hefur ítrekað varað við þeirri sérstöku hættu sem stafar af vopnum sem stjórnað er af fólki að einungis litlu eða jafnvel engu leyti.“

Um það snýst þessi tillaga. Hún snýst í raun og veru um vopn sem eru búin þeirri gervigreind að þar þarf hin mannlega hönd hvergi að koma nærri.

Samtökin benda einnig á að sú reynsla sem fengist hafi af beitingu fjarstýrðra vígvéla gefi tilefni til að gjalda varhuga við að skapa enn frekari fjarlægð milli hermanna og vopna þeirra en orðið er. Um þetta snýst málið, því að þarna er í raun og veru verið að færa stríðsrekstur á nýtt svið. Sérfræðingar í þessum efnum hafa sagt að framleiðsla slíkra sjálfstýrðra vígvéla sem gæddar eru gervigreind og taka sjálfar ákvarðanir um það hver skuli lifa og hver skuli deyja muni breyta stríðsrekstri á sama hátt og púðrið breytti honum á sínum tíma og kjarnavopnin síðar meir, geti stökkbreytt stríðsrekstri.

Þá vil ég líka vekja athygli, frú forseti, á umsögn frá Gervigreindarsetri Háskólans í Reykjavík sem er elsta og stærsta rannsóknasetur Íslands á sviði gervigreindar, en þar segir í stuttri og snaggaralegri umsögn þar sem stuðningi er lýst við málið:

„Hættan sem felst í að fela vélum að ákveða hvaða lífi skuli eytt og getunni til að eyða því, er raunveruleg og ekki lengur sviðsmynd úr vísindaskáldsögu. Ef ekki er gripið snemma inn í þessa öru þróun sjálfvirkrar vígbúnaðartækni er voðinn vís. Við hvetjum Alþingi til að samþykkja þessa tillögu og leiða veröldina með framsýni og góðu fordæmi.“

Ég fagna þeirri niðurstöðu hv. utanríkismálanefndar að vera reiðubúin að leggja það til við þingið hér á eftir að Alþingi muni lýsa stuðningi við áform og viðræður um alþjóðlegt bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra og sjálfstýrðra vígvéla og fela ríkisstjórninni að fylgjast með þróun þessara mála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar þar sem það á við. Við getum, í ljósi þess að við erum herlaust land með friðsæla fortíð í friðsamlegum samskiptum við heiminn allan, beitt okkur án þess að vera undir þrýstingi stórra og sterkra hagsmunaaðila sem sjá að sjálfsögðu tækifæri í því að koma slíkum vopnum á markað. Ég held að allir þeir sem kynnt hafa sér málið sjái hversu mikla hættu það skapar í stríðsrekstri í heiminum og líka þau siðferðilegu álitamál sem eru í raun og veru handan okkar skilnings í heiminum eins og við þekkjum hann í dag. Við höfum fordæmi fyrir því að svona barátta getur skilað árangri. Ég nefni þar sérstaklega baráttuna gegn efnavopnum. Ég held að allir hv. þingmenn séu sammála um að það var mikið heillaskref þegar ákveðið var að banna notkun slíkra vopna. Ég vonast svo sannarlega til þess að Ísland geti orðið rödd sem taki þátt í því á alþjóðavettvangi að það sama megi gerast með sjálfstýrðar vígvélar. Það vona ég svo sannarlega, frú forseti.