145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

stofnun loftslagsráðs.

131. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti umhverfis- og samgöngunefndar um tillögu til þingsályktunar um stofnun loftslagsráðs.

Nefndin hefur fjallað nokkuð um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti sem getið er um í nefndaráliti og jafnframt bárust umsagnir um málið frá ýmsum stofnunum sem starfa á því sviði sem tillagan tekur til.

Með tillögunni er lagt til að fela ríkisstjórninni að koma á fót loftslagsráði sem hafi það meginhlutverk að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Gert er ráð fyrir að ráðinu verði falin víðtæk verkefni á sviði loftslagsmála og lagt er til að ráðið verði fjölskipað vísindamönnum frá helstu rannsóknarstofnunum og samtökum landsins. Í lokamálslið tillögunnar er lagt til að á fimmta starfsári loftslagsráðs skipi umhverfis- og auðlindaráðherra nefnd sem leggi mat á skipan þess og starfshætti og geri eftir atvikum tillögur um breytingar.

Í nefndarálitinu er nokkur umfjöllun um loftslagsbreytingar og forsendur þess að tillagan er lögð fram og segir m.a. að ljóst sé að ríki heims þurfi að taka höndum saman í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og er árangur Parísarfundarins seint á síðasta ári og samkomulags sem náðist á þeim fundi stórt skref í þá átt að fá þjóðir heims í sameiginlega baráttu gegn loftslagsbreytingum. Vísað er til þess að ástæða breytinganna sé einkum útblástur gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis og segir svo að það að snúa þróun í loftslagsmálum við þannig að hlýnun jarðar haldist innan viðráðanlegra marka á þessari öld kalli á miklar breytingar í samfélaginu.

Gestir og umsagnaraðilar nefndarinnar voru almennt jákvæðir gagnvart efni tillögunnar enda mikilvægt að reyna að vinna gegn loftslagsbreytingum og neikvæðum afleiðingum þeirra. Töluvert hefur verið rannsakað og unnið síðustu ár á þessum vettvangi og fyrir nefndinni var m.a. bent á að árið 2008 hefði vísindanefnd um loftslagsbreytingar skilað af sér skýrslu þar sem hnattrænum loftslagsbreytingum var lýst og líklegum áhrifum þeirra á Íslandi. Árið 2009 skilaði sérfræðinganefnd umhverfisráðuneytisins skýrslu um möguleika á því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Nú hafi umhverfis- og auðlindaráðuneytið falið vísindanefnd um loftslagsbreytingar að vinna aðra skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga hér á landi og þá er einnig á vegum háskólasamfélagsins unnið að frekari úttekt á möguleikum til að draga úr loftslagsbreytingum. Þá bendir umhverfis- og samgöngunefnd á að ýmsir opinberir aðilar hafa í auknum mæli á síðustu árum tekið mið af loftslagsmálum í starfsemi sinni og beri að fagna því. Jafnframt þurfi að auka hvata hjá einkaaðilum til að taka skref í átt að minni losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingu.

Nefndin bendir á undir lok nefndarálitsins að loftslagsráði sé ætlað víðtækt hlutverk og það muni því þjóna nokkurs konar samhæfingarhlutverki með yfirsýn yfir þá vinnu sem unnin er í loftslagsmálum hér á landi. Ráðinu sé ætlað að miðla upplýsingum um loftslagsmál en ekki að stunda tilteknar rannsóknir eða stuðla að þeim. Þá sé ráðinu falið ráðgjafarhlutverk við að koma með tillögur að leiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til stjórnvalda og annarra aðila. Að mati nefndarinnar er skipan ráðsins til þess fallin að ýta undir vægi þeirra ráðlegginga sem frá ráðinu koma en það yrði skipað sérfræðingum á sviði náttúruvísinda.

Umhverfis- og samgöngunefnd leggur til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Ásta Guðrún Helgadóttir og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar, Katrín Júlíusdóttir, Haraldur Einarsson, Elín Hirst, Svandís Svavarsdóttir, Róbert Marshall og sá sem hér stendur.

Ég vildi til viðbótar við ummæli nefndarálitsins geta þess að við athugun á málinu er ljóst að þingsályktunartillagan gengur út á að ríkisstjórnin, og þá einkum umhverfis- og auðlindaráðherra, beiti sér fyrir því að ráð af þessu tagi verði stofnað til að samhæfa starf sem á sér stað hjá fjölmörgum aðilum innan stjórnkerfisins og eins hjá aðilum utan kerfisins, frjálsum félagasamtökum, rannsóknarstofnunum og fleirum. Það er mikilvægt að fyrir hendi sé vettvangur til samhæfingar á þeirri starfsemi. Í ljósi þess er ástæða til að fagna þessu.

Ég vildi segja frá eigin brjósti líka að þegar horft er til þess að þegar verið er að vinna verkefni af þessu tagi á ýmsum stöðum í kerfinu þá er samhæfingin auðvitað augljós kostur, en hins vegar þarf að huga að því að þarna sé ekki um að ræða nýja starfsemi eða starfsemi sem gengur inn á það sem aðrir eru þegar að gera, heldur samhæfa það sem er í gangi.

Ég tel líka að þegar ríkisstjórnin útfærir efni þessarar tillögu þurfi að huga að því hvort gera þurfi lagabreytingar sem eftir atvikum væru til þess að undirstrika heimildir og umfang þeirrar starfsemi sem um er að ræða.