145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

tekjuskattur.

735. mál
[18:47]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að mæla fyrir nýju frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt þar sem sérstaklega er tekið á fyrirbærinu þunnri eiginfjármögnun. Hv. þingmönnum þarf ekki að koma á óvart að ég sé að mæla fyrir þessu máli þar sem ég mælti fyrir slíku máli á þinginu sem hér var 2013–2014. Meðferð þess máls lauk þannig eftir að málið hafði verið sent út til umsagnar og umsagnir borist að hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagði til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar í ljósi þess að nefndin væri sammála efnisatriðum málsins en teldi að fara þyrfti yfir útfærsluhlutann.

Síðan eru liðin tvö ár og tók mér að leiðast þófið hjá ríkisstjórninni. Hafandi spurt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra allnokkrum sinnum um gang mála ákvað ég að fljótlegra væri að fara yfir þær umsagnir sem bárust, ekki síst frá skattyfirvöldum á sínum tíma, sem voru afar gagnlegar. Hefur núna verið unnið úr þeim umsögnum og er þetta mál komið fram á nýjan leik með sömu meginmarkmiðum en vissulega með talsverðum breytingum í uppbyggingu málsins. Markmið þingmálsins er auðvitað hið sama og áður, þ.e. að vinna gegn möguleikum á skattsniðgöngu sem felst í svonefndri þunnri eiginfjármögnun, stuðla þannig að bættri skattheimtu og leitast við að tryggja að skatttekjur af starfsemi sem fer fram hérlendis renni til samfélagsins og uppbyggingar þess.

Hæstv. ráðherra mælti fyrir máli fyrr í þessari viku um aðgerðir gegn skattaskjólum þar sem ágætisskref eru lögð til í slíkum aðgerðum, en ég tel það miður að eiginfjármögnunin hafi ekki verið hluti af því frumvarpi og vonast til þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fái tækifæri til að taka þetta frumvarp til umfjöllunar samhliða umfjöllun sinni um frumvarp hæstv. ráðherra og að við munum þá kanna hvort umsagnaraðilar séu sáttari við þá útfærslu sem hér er lögð til.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þetta því að hv. þingmenn þekkja málið vel. Með hugtakinu eiginfjármögnun er vísað til fjármögnunar félags sem er fengin frá tengdum aðilum. Félag sem er með þunna eiginfjármögnun er þannig uppbyggt að það getur t.d. verið gríðarlega skuldsett og hátt hlutfall af heildarfjármunum þess er þá lán frá tengdum aðilum. Þegar ég tala um tengda aðila vitna ég til þess að málið snýst í raun og veru um félagasamstæður, þ.e. móður- og dótturfélög. Ef fjármögnun dótturfélaganna kemur frá móðurfélagi sem er staðsett erlendis, t.d. í ríki sem ber lægra skatthlutfall en Ísland, jafnvel skattaskjóli, þá hvetja íslenskar skattareglur sem og skattareglur ýmissa annarra þjóða fremur til fjármögnunar með lánum en hlutafé þar sem vaxtagreiðslur vegna lána eru frádráttarbærar frá tekjuskattsstofni en arðgreiðslur eru það ekki. Ef móðurfélagið vill geta tekið sem mestan hluta hagnaðar dótturfélags til sín er hagkvæmara, eins og ástandið er núna, að móðurfélagið láni dótturfélaginu háar fjárhæðir sem síðan eru greiddar til baka með háum vöxtum sem fela þá í raun í sér greiðslu á hagnaði dótturfélagsins, sem alla jafna ætti að greiða út sem arð til eigenda félagsins, til móðurfélagsins í formi vaxtagreiðslna. Þetta skapar ekki vandamál ef öll félög eru innlend, þar sem fjárhæð til frádráttar í einu félagi kemur til skattlagningar í öðru, en vandamálið skapast þegar móðurfélagið er staðsett þar sem skattareglur eru hagstæðari en í því ríki sem dótturfélagið starfrækir starfsemi sína. Þetta gerir t.d. alþjóðlegum fyrirtækjasamstæðum auðveldara fyrir að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum með svokallaðri skattsniðgöngu. Slík mál hafa komið upp í kringum ýmis slík alþjóðleg fyrirtæki, Starbucks, Apple og fleiri hafa verið í slíkum málum. Við höfum séð að ríki heims eru mjög víða að taka á þessu. Ég vitna til þess til að mynda að þessi umræða hefur verið mjög áberandi í Bretlandi, hún hefur verið áberandi innan OECD og Evrópusambandsins.

Upphaflega frumvarpið byggði á skýrslu starfshóps frá júní 2012 þar sem fulltrúar stjórnvalda og atvinnulífs sátu. Upphaflega frumvarpið byggði í rauninni á hugmyndum þess starfshóps, en hér hefur verið tekið tillit til umsagna og verið að leggja til vísi að reglum um milliverðlagningarákvæði, eða milliverðlagsákvæði eins og það er kallað, og tryggja þannig að skattlagning sé sem næst raunhagnaði vinnsluaðila. Það þarf ekkert að hafa um þetta mörg orð, frú forseti, tilgangurinn er að skattlagning þeirra aðila sem falla undir þetta frumvarp sé í réttu samhengi við raunhagnað þeirra. Við þurfum ekki að flækja málið mikið. Ég hef rætt það talsvert oft í þessum ágæta sal og vona að hv. þingmenn þekki málið.

Það sem hefur verið bent á í umræðum um þetta mál er að þær fyrirtækjasamstæður sem málið kann að varða séu jafnvel með samninga, ívilnunarsamninga, sem geri það að verkum að ekki sé hægt að taka á þessum málum í þeirra tilvikum.

Í fyrsta lagi vil ég segja við því að auðvitað horfum við til framtíðar. Við horfum til þess að hér sé regluverk þar sem eitt gangi yfir alla og við skekkjum ekki samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja með því að hafa sérreglur fyrir suma og aðrar reglur fyrir aðra og það eigi að vera leiðarljós okkar í framtíðinni þegar slíkir samningar eru gerðir. Það er líka mikilvægt að kafað verði til botns í því hvort eitthvað sé hægt að gera í því.

Ég vonast til þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd, og ég legg til að málinu verði vísað þangað að lokinni 1. umr., fari vel yfir það hvort hún telji að nægilegar úrbætur hafi orðið á málinu þannig að nefndin sem féllst á efnisatriði og markmið frumvarpsins vorið 2014 treysti sér til að samþykkja málið samhliða frekari aðgerðum gegn skattsniðgöngu sem verða til umfjöllun hjá nefndinni í sumar.