145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

tekjuskattur.

735. mál
[18:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að full ástæða sé til að skoða þá tillögu sem hér liggur fyrir. Ég á ekki sæti í efnahags- og viðskiptanefnd að jafnaði en ég held að ástæða sé til þeirrar skoðunar og eins til að skoða hvaða þróun á sér stað í öðrum löndum sem eru bæði samstarfs- og samkeppnislönd okkar í þessum efnum. Í málum af þessu tagi getur skipt máli að vera samstiga þeirri þróun sem þar á sér stað til þess að við gerum samkeppnisstöðu okkar ekki erfiðari eða verri en séum heldur ekki að búa til einhverjar holur hér sem aðrir aðilar geta nýtt sér.

Ég velti fyrir mér, vegna þess að hv. þingmaður getur þess að þetta mál hafi komið fram í sinni fyrstu mynd þingveturinn 2013–2014, hvort ekki hafi komið til álita, í þeirri ríkisstjórn sem hv. þingmaður átti aðild að árin 2009–2013, að beita sér fyrir breytingum af þessu tagi, því að sú ríkisstjórn var almennt ekki mjög hikandi í að gera skattalegar breytingar.