145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

tekjuskattur.

735. mál
[18:55]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli mínu þá byggist upphaflegt frumvarp á þeirri vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili, þ.e. síðasta ríkisstjórn setti á laggirnar starfshóp til þess að skoða þetta. Eins og hv. þingmaður fer réttilega með þá var mikið starf unnið í ýmsum aðgerðum gegn skattsniðgöngu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég get nefnt ríflega 30 upplýsingaskiptasamninga sem hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon báru höfuðábyrgð á. Ég get nefnt CFC-reglurnar sem hér hafa verið til umræðu. Ég get líka nefnt þennan starfshóp sem mótaði þessar tillögur þar sem sátu á sínum tíma ýmsir aðilar, á vegum fjármálafyrirtækja, stofnana á sviði fjármálaeftirlits og þess geira, til þess að koma sér saman um hvernig mætti taka á þessu.

Ég verð nú að segja það, af því að hv. þingmaður nefnir líka hina alþjóðlegu þróun, að það er mismunandi hvernig tekið er á álitaefnum tengdum þunnri eiginfjármögnun í löggjöf annarra ríkja. Það er kannski um að ræða tvær aðferðir að meginstefnu til, þ.e. skuldahlutfallsreglu annars vegar og EBITDA-reglu hins vegar. Í þessu frumvarpi er EBITDA-reglan notuð sem er í samræmi við álit skattasérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta er lagt til út frá þeim rökum að hún teljist skilvirkari og einfaldari í framkvæmd og í raun og veru er það svo, samkvæmt mínum upplýsingum á vettvangi OECD svo að dæmi sé tekið, þar sem þessi mál hafa verið til skoðunar, að mörg ríki sem hafa beitt skuldahlutfallsreglunni hafi í hyggju að skipta yfir í EBITDA-regluna. Að sjálfsögðu er mikilvægt að fylgjast með þessum málum á alþjóðavettvangi. Ég get fullvissað hv. þingmann um að fjölmörg ríki í kringum okkur, t.d. innan OECD, hafa verið að taka upp slíkar reglur og gildir þá einu hvort um vinstri eða hægri stjórnir er að ræða.