145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

tekjuskattur.

735. mál
[18:59]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er í raun og veru að hefja hér nýja umræðu sem gæti tekið langan tíma og snýr að því hvernig við viljum haga málum. Hv. þingmanni er það jafn vel kunnugt og mér að við höfum ýmsar sérreglur í gildi. Nú síðast vorum við að samþykkja, bara í þessari viku, endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Við erum líka á sama tíma að samþykkja sérstakar skattaívilnanir vegna nýsköpunarfyrirtækja þar sem kvikmyndagerðin er undanskilin. Hv. þingmenn hafa ólíkar skoðanir á þessu, en oft og tíðum hafa þarna tekist á þau sjónarmið að við viljum annars vegar stuðla að atvinnuuppbyggingu, jafnvel svæðisbundinni atvinnuuppbyggingu eða atvinnuuppbyggingu í tilteknum geirum, og hins vegar viljum við eitt kerfi fyrir alla.

Ég ætla að taka undir það með hv. þingmanni að um leið og ég hef skilning á þessum sjónarmiðum þá er mikilvægt að við reynum að koma okkur saman um það hvaða reglur við viljum að gildi; svo að ég taki dæmi sem við erum nýbúin að ræða þá er það alveg ferðarinnar virði að velta því fyrir sér að útiloka ekki kvikmyndagerð og nýsköpun og tryggja að þar gildi skattaívilnanir frekar en að vera með sérstakt kerfi. Þetta er hins vegar saga sem við þekkjum mjög vel úr atvinnulífi okkar.

Ég held að full ástæða sé til þess að horfa til lengri tíma í stefnumótun á þessu sviði. Þar mundi maður að sjálfsögðu þiggja þverpólitískt samráð, en líka samráð við ólíka landshluta og ólíka geira til þess að við gætum komið okkur saman um sýn. Þar er gagnsæi mjög mikilvægt. Ég hef rætt það hér að mér finnst að gagnsæi eigi að vera eitt af meginhlutverkum skattkerfisins og ég held að sú sýn eigi eftir að verða meira áberandi á næstu árum. Hv. þingmaður tæpir hér á mjög mikilvægu máli sem ég held að við gætum átt umræðu um langt fram á kvöld, herra forseti.