145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[19:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög mikil réttarbót, grundvallarmál, fyrsta skref í þá átt að gera stöðu sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu enn betri en hún er í dag. Við erum að létta greiðslum af okkar veikasta fólki sem oft og tíðum hefur liðið stórkostlega fyrir hið ógagnsæja, ómannúðlega greiðslukerfi sem hefur viðgengist allt of lengi í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Sem betur fer er grundvallarbreytingin gerð í mjög mikilli sátt. Út á það gengur frumvarpið. Til hliðar við það eru síðan drög að reglugerð sem kallar á setningu stjórnvaldsins á gjaldtöku. Við höfum tekist á um það. Við náðum samkomulagi um það þvert á alla flokka og í mikilli samstöðu að verja auknum fjármunum í heilsugæsluna til að búa hana betur undir þetta verkefni. Sömuleiðis náðum við samkomulagi um að fjármagna betur greiðsluþátttökuhlutann með það í huga að lækka þökin og (Forseti hringir.) draga úr álögum á sjúklinga. Ég fagna og þakka um leið þá miklu samstöðu sem um þetta þjóðþrifaverk er.