145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[19:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa haft frumkvæði að því og treyst sér til að koma hér inn með frumvarp um þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu, löngu tímabæra breytingu. Við höfum fagnað því alla tíð. Áhyggjur okkar af þessu máli hafa ávallt snúist um tvennt; að ekki væri nóg að gert hvað varðaði uppbyggingu heilsugæslunnar og að þökin í greiðsluþátttöku væru of há. Ég vil þess vegna fagna því sérstaklega að ríkisstjórnin skuli hafa komið að borðinu í gær og nálgast okkur að því leyti. Við getum því staðið að þessu máli og erum afskaplega stolt af því að hafa fengið því framgengt að nú verður auknu fé varið í heilsugæsluna til uppbyggingar hennar og ráðningar lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga og að þakið í greiðsluþátttöku verður lækkað verulega. Það er mikill árangur. Ég vil óska okkur öllum til hamingju með hann.