145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[19:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta stór stund vegna þess að þetta er mikið réttlætismál sem gengur einfaldlega út á að það fólk sem er veikast þurfi ekki að bera óhóflegar fjárhagslegar byrðar út af heilbrigðisþjónustu. Það þýðir líka að við hin sem erum svo lánsöm að búa við betri heilsu þurfum að borga eitthvað meira. Ég setti þessa vinnu af stað á sínum tíma og ástæðan var einfaldlega sú að það kom til mín kona sem átti lítið eftir, hún var samt bjartsýn og jákvæð, allt of ung, sem útskýrði hvernig fyrirkomulagið væri fyrir sig og aðra krabbameinssjúklinga og hún bað mig að setja þessa vinnu af stað. Ég fól þá hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að sinna því verki sem þau gerðu af alúð. Þau náðu því miður ekki að klára verkið, en núna hefur það verið klárað. Ég vil nota tækifærið og óska hæstv. ráðherra, hv. velferðarnefnd og þingheimi öllum til hamingju með að (Forseti hringir.) ná saman um þetta mikilvæga mál.