145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[19:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að við skulum vera komin í lokaafgreiðslu þessa máls. Mér segir svo hugur að þetta gæti átt eftir að teljast dálítið stór dagur í sögu heilbrigðismála í landinu þegar hér eru í þverpólitískri samstöðu innleidd skref til þjónustustýringar eða tilvísunarkerfis í gegnum heilsugæsluna og sett þök á hinn óhóflega kostnað sem einstakir aðilar hafa borið í heilbrigðiskerfinu.

Þrennt er ánægjulegt. Það er sú stefnumótun sem felst í þjónustustýringunni, það eru þökin og það eru þeir fjármunir sem samstaða tókst um að tryggja inn í kerfið, bæði til að efla heilsugæsluna upp á 300–400 milljónir á þessu ári og í fjárlögum næsta árs, þannig að unnt verði að tryggja að hið almenna kostnaðarþak fari ekki yfir 50 þús. kr. Þetta er góð niðurstaða og ég óska öllum til hamingju með hana, bæði þeim sem hafa stuðlað að því að hún er að verða að veruleika, en sérstaklega þjóðinni.