145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[19:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hér hafa menn ausið lofi á hæstv. heilbrigðisráðherra og ekki skal ég draga úr mínum þætti í því. Hann á hrós skilið fyrir frumkvæðið sem felst í að leggja fram þetta frumvarp. Það er sögulegt að mörgu leyti og sker burt einhvern ljótasta skavankann á íslenska heilbrigðiskerfinu. En þetta mál, eins og það kemur núna til afgreiðslu, sýnir líka hvað það skiptir miklu máli að hafa öfluga stjórnarandstöðu. Það er ekki síst verk stjórnarandstöðunnar sem gerði það að verkum að hægt var að samþykkja þetta frumvarp. Það var vegna viðspyrnu hennar sem settar voru 400–500 millj. kr. í heilsugæsluna, 1.200 millj. kr. til að lækka greiðsluþökin. Það er stórkostlegt að það tókst fyrir vinnu nefndarinnar að lækka greiðsluþakið úr 95 þús. kr. í 50 þús. kr. Fyrir mig sem gamlan eðalkrata er stórkostlegt að standa hér og sjá hæstv. heilbrigðisráðherra og okkur öll sigla til hafnar gömlu baráttumáli Sighvats Björgvinssonar, tilvísunarkerfinu. Sérstaklega vil ég óska mínum elskuðu vinum í Sjálfstæðisflokknum til hamingju með að hafa hjálpað til við það.