145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[19:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Frumvarpið hefur bein tengsl við áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta en megintilgangur þess er að lögfesta heimild Seðlabanka Íslands til að beita stjórntæki til að tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsinnstreymis til landsins, svokallað fjárstreymistæki. Lögfesting ákvæða um varúðartæki af einhverju tagi í tengslum við vaxtamunarviðskipti hefur verið til skoðunar hjá stjórnvöldum um nokkurt skeið. Slík viðskipti geta, líkt og kunnugt er, valdið ójafnvægi í raunhagkerfinu og innan fjármálakerfisins og raskað framkvæmd eðlilegrar hagstjórnar á sviði peninga- og ríkisfjármála.

Við höfum í umræðum á þinginu einatt rætt hvernig við mundum mögulega lögfesta reglur af þessum toga, hvers eðlis þær kynnu að verða. Við höfum gert okkur grein fyrir því um langt skeið að við gætum aftur staðið frammi fyrir vaxtamunarviðskiptum með svipuðum hætti og við sáum gerast hér fyrir fall fjármálakerfisins og eftir því sem efnahagskerfinu hefur að nýju vaxið fiskur um hrygg birtast okkur þær hættur að nýju í auknum mæli. Við höfum séð tölur undanfarin missiri um það að vaxtamunarviðskipti hafa þó í mun minna mæli en áður var látið á sér kræla. Þegar litið er til framtíðar er, að því er virðist, orðinn nokkuð góður samhljómur í þinginu um að orðið sé tímabært að setja reglur af þessu tagi.

Ég leyfi mér í því samhengi að vísa til nefndarálits vegna laga sem við höfum nýsett í þinginu um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Það má segja að þvert á flokka hafi þar komið fram það sjónarmið að nú væri rétti tíminn til að setja reglur af þessu tagi.

Ég vil þó segja að ég hefði fyrir svo margra hluta sakir kosið að þingið hefði haft aðstæður til að vega og meta og dýpka umræðuna um þessa þætti í betra tómi og haft til þess rýmri tíma en við bjóðum upp á með þeirri framsetningu sem hér birtist okkur, þ.e. við leggjum fram frumvarp um efnið í þröngum tímaramma, þegar við erum senn að ganga til sumarhlés frá þingstörfum. Hvað þann aðdraganda snertir skal ég fyrstur segja að ég hefði mjög gjarnan viljað að aðstæður væru eitthvað öðruvísi og meiri tími gæfist fyrir dýpri skoðun á þessum þáttum.

Ég hef af þeirri ástæðu alveg hugleitt hvort málið hefði þurft að koma til frekari skoðunar, og þess vegna í einhverju samstarfi flokkanna, áður en það kom hingað í þingið. Á sama tíma verður ekki fram hjá því litið að okkur eru að birtast merki um að þessi þáttur alþjóðaviðskipta sé aftur að lifna við. Við fáum vísbendingar af ýmsu tagi um að ástæða sé til að gefa þessu aftur gaum, sem af eðlilegum ástæðum lá niðri um nokkurt skeið. Þá er það einkum vegna þess að við erum á miðju kraftmiklu hagvaxtarskeiði og það hillir undir lok haftatímabilsins.

Af þeirri ástæðu ber ég þetta mál fram í þinginu og legg til að reglur af þeim toga sem málið fjallar um verði settar og lögleiddar sem allra fyrst. Sá valkostur var í boði að bíða haustsins en ég tel tryggara að þetta skref verði stigið nú. Í frumvarpinu er lagt til að Seðlabankanum verði veitt heimild til að setja reglur sem kveða á um bindingu reiðufjár vegna tiltekinna nýfjárfestinga, innstæðna og lánveitinga sem gerðar eru fyrir nýtt innstreymi erlends gjaldeyris. Hér er um að ræða innflæði, einkum í formi skuldabréfakaupa og nýrra bankainnstæðna, þar sem kaupendur horfa til skammtímaávinnings vegna vaxtamunar á milli Íslands og annarra landa. Bankinn geti þannig sett almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem fela í sér skyldu til að binda reiðufé sem kann að nema allt að 75% af viðskiptunum á reikningi hjá innlánsstofnun hér á landi, að hámarki til fimm ára. Innlánsstofnun skal í framhaldinu leggja fjárhæð sem samsvarar allri bindingarfjárhæð á bundinn reikning hjá Seðlabanka Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að reglusetningin sé háð samþykki fjármála- og efnahagsráðherra og að heimildin til að beita henni verði sett í ákvæði til bráðabirgða við lög um gjaldeyrismál, enda er um að ræða tímabundið úrræði sem tekur mið af gildandi regluverki um gjaldeyrismál.

Ég ætla örstutt að tala um þessi tvö atriði. Það er álitamál hvort reglur af þessum toga eigi yfir höfuð að vera háðar samþykki ráðherra. Það má líka velta fyrir sér hvort það mætti útfæra slíkt mögulegt samþykki með öðrum hætti. Ég legg málið í þessum búningi fyrir þingið og hvet nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd til að hugleiða þennan þátt. Almennt mundi ég vilja segja um þetta atriði að ég held að ekki sé ráðlegt þegar um beitingu þessarar tegundar úrræða er að ræða að til aðkomu ráðherrans þurfi að koma. Á hinn bóginn komum við nokkuð bratt inn í þetta mál að þessu sinni með tiltölulega skömmum undirbúningi og takmörkuðu samráði. Við erum sömuleiðis að setja ákvæði til bráðabirgða inn í lagabálk sem við væntum þess að taki endurskoðun haftaumhverfisins áður en langt um líður. Þegar að því kæmi að endurskoða ákvæðið sé ég fyrir mér að það fari í einhverjum öðrum búningi eða með svipuðum efnisreglum, allt eftir mati þess tíma, inn í lög um Seðlabanka Íslands, að þá verði skoðað hvaða úrræði og í hvaða formi eigi að standa Seðlabankanum til boða til að ná þessum markmiðum.

Þegar að því kemur finnst mér nokkuð ljóst að við mundum ekki hafa slíka reglu sem varanlega lagareglu háða samþykki ráðherrans.

Þetta eru aðeins sjónarmið sem ég legg inn í umræðuna og hvet menn til að íhuga í nefndinni. Það er ekkert augljóst í þeim efnum hvað er rétt að gera. Mér finnst koma til greina að útfæra greinina þannig að samþykki ráðherra þyrfti til í upphafi en að breytingar eftir að reglurnar hafa verið settar gætu síðan farið fram án samráðs við ráðherrann. Það eru alveg gild sjónarmið fyrir því að Seðlabankinn taki þessar ákvarðanir einn og óstuddur. Meðal annars er auðvelt að vísa í sjálfstæði Seðlabankans því til rökstuðnings. Helstu rökin fyrir því að þetta er lagt svona upp eru þau að við stígum hér í raun inn á nýjar lendur. Við erum að bregðast við umræðu sem hefur meira eða minna varað í um áratug, frá því að við sáum jöklabréfaútgáfuna ná hámarki fyrir mörgum árum síðan. Við komum nokkuð bratt inn í þingið með þessa lausn og af þeirri ástæðu fyrst og fremst er þetta lagt upp svona og síðan aftur með vísan til þess að um bráðabirgðaákvæði sé að ræða.

Fjárstreymistækið í þessu frumvarpi byggist á því að settar verði reglur sem kveða á um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis, eins og ég hef áður rakið, erlends gjaldeyris af tilteknu tagi. Í reglunum skal m.a. tiltaka bindingartíma, bindingarhlutfall, uppgjörsmynt og vexti. Útfærsla fjárstreymistækisins tekur mið af því að stjórntækið dragi úr þeirri áhættu sem verulegt fjármagnsinnstreymi getur skapað og styðji við aðra þætti innlendrar hagstjórnar. Einnig að tækið sé sveigjanlegt, markvisst og skilvirkt í framkvæmd. Loks byggist það á tímabundinni, gegnsærri og viðurkenndri leið til að hafa áhrif á fjármagnsflæði.

Í frumvarpinu er þannig gert ráð fyrir að Seðlabankinn hafi heimild til að setja nánari reglur um útfærslu fjárstreymistækisins og ef aðstæður breytast geti hann aðlagað það fljótt að fengnu samþykki ráðherra. Þess er að vænta að strax í kjölfar þess að þetta frumvarp verður samþykkt, ef til þess kemur, verði birtar reglur Seðlabankans um efnið. Ég vænti þess að nefndin geti fengið nánari útlistun á því í yfirferð um málið.

Útfærsla þessa fjárstreymistækis er í takt við almenna ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hönnun tækja til að stemma stigu við óhóflegu innstreymi fjármagns. Þess er gætt að bindingin hafi bein áhrif á hvata til vaxtamunarviðskipta og hægt sé að bregðast við breyttum aðstæðum á skilvirkan hátt. Ég vil taka fram að meðal þess sem fékk sérstaka skoðun við undirbúning málsins var hversu víðtækt málið ætti að vera, hversu fjölbreytt flóra fjárfestinga gæti átt undir reglurnar. Hér er frumvarpið lagt fram þannig að sérstaklega er tiltekið það sem við þekkjum sem vaxtamunarviðskipti, einkum í skuldabréfunum. Langaugljósasta dæmið er ríkisskuldabréfin en um þetta er fjallað í 2. gr. frumvarpsins. Þar er farið beint yfir fjárfestingarnar sem slíkar í skuldabréfum, víxlum eða innstæðum og síðan í öðrum greinum í því sem endurspeglar slíkar fjárfestingar, svo sem hlutdeildarskírteini sjóða sem stunda slíkar fjárfestingar. Það er sami hluturinn í þessu samhengi og hið sama gildir ef menn stofna hlutafélag sem er að fara í slíka starfsemi, kaup á því eða eiginfjárframlag til þess er sami hluturinn sömuleiðis.

Í frumvarpinu er einnig lögð til ein breyting á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki í þá veru að bindingarfjárhæð sem komin er til vegna fyrrnefndra reglna Seðlabankans verði frádráttarbær frá stofni skattsins. Þessi skattur hefur í daglegu tali verið kallaður bankaskattur. Breytingin kemur til af því að markmið nýs bráðabirgðaákvæðis í lögum um gjaldeyrismál er einkum að tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsinnstreymis en ekki að skapa tekjustofn fyrir ríkið. Þá leiðir af sjálfu sér að bindingarfjárhæðin myndi ekki skattstofn.

Ég vil einnig nefna að með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Þessi nýsettu lög taka breytingum með frumvarpinu en þær eru til komnar vegna upplýsinga frá hagsmunaaðilum eftir lögfestingu laganna og þær eru til ívilnunar fyrir þá. Þarna er um að ræða atriði sem ekki voru fyrirséð við undirbúning málsins og er lagt til að færð verði til betri vegar.

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar sem er ætlað að koma til móts við þá aflandskrónueigendur sem eiga innstæður sem hafa verið fluttar inn á reikninga háða sérstökum takmörkunum fyrir gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands. Til að tryggja jafnræði aflandskrónueigenda til ráðstöfunar eigna sinna er lagt til að úttektir af reikningum þessum, vegna þátttöku í gjaldeyrisútboðinu annars vegar og vegna fjárfestinga í tilteknum fjármálagerningum hins vegar, verði heimilar.

Í öðru lagi er lagt til að þær aflandskrónueignir sem undanþegnar eru lögum um gjaldeyrismál vegna flutnings úr vörslum erlends lögaðila til innlánsstofnunar eða vörsluaðila hér á landi á grundvelli bréflegrar umsóknar sem Seðlabanki Íslands móttók fyrir gildistöku laga um meðferð krónueigna falli utan gildissviðs þeirra laga. Í síðastnefnda tilvikinu er að mestu leyti um að ræða lágar fjárhæðir sem hafa verið í samfelldri eigu einstaklinga frá því fyrir fjármagnshöft, þ.e. frá 28. nóvember 2008, og hefðu fallið undir þau fjárhæðarviðmið sem upphaflega voru lögð til í 12. gr. frumvarps til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, þ.e. 6.000.000 kr. markið sem þar var að finna.

Í þriðja lagi er lagt til að eigendum aflandskrónueigna verði heimilt að fjárfesta í þeim fjármálagerningum sem fram koma á fjárfestingarlista Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Hér er því um að ræða rýmkun frá því sem nú er.

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að Alþingi tryggi að stjórnvöldum verði gert kleift að draga úr áhættu á verulegu innflæði í kjölfar þess að gjaldeyrisútboði vegna aflandskrónueigna lýkur og undirbúningi að almennri losun hafta vindur fram. Að öðrum kosti er hætta á að þeim efnahagslega stöðugleika sem byggður hefur verið upp á síðastliðnum missirum og árum verði ógnað. Eins og ég hef áður nefnt horfum við fram á vaxandi áhuga á fjárfestingu á Íslandi, ekki aðeins vegna þess að hér árar vel um þessar mundir heldur líka vegna þess að svo víða annars staðar er það erfiðleikum bundið að ávaxta fé, það eru ómældar upphæðir í fjármálakerfum heimsins sem fá enga ávöxtun um þessar mundir. Það er augljóst við þær aðstæður að við verðum að bregðast við hættunni á að slíkar áhættufjárfestingar fari að nýju vaxandi.

Ég rakti í upphafi máls míns að við höfum margoft tekið það á dagskrá á þinginu hvort og hvernig við hygðumst fyrirbyggja þann óróa sem slíkum fjármagnshreyfingum inn og út úr landinu á skömmum tíma getur fylgt. Í greinargerð með þessu frumvarpi er farið yfir það nokkuð ítarlega að skammtímahreyfingar inn og út úr landinu geri ekki mikið gagn fyrir hagkerfið yfir höfuð og geti fyrst og fremst valdið okkur vandræðum og ýtt undir óstöðugleika á meðan annað gildir um fjármagn sem er komið hingað til þess að fjárfesta til lengri tíma.

Ég hvet alla áhugasama til að kynna sér vel greinargerðina með frumvarpinu sem fer yfir alla þessa þætti nokkuð ítarlega.

Virðulegi forseti. Ég tel að við séum með í höndunum tillögur að stjórntæki sem geti skipt miklu fyrir möguleika okkar til þess að auka stöðugleikann í landinu, en eins og ég hef áður sagt í umræðu um þessi mál verða þau stjórntæki aldrei eins og einhver töfrasproti sem leysir öll okkar vandamál, allar okkar áhyggjur. Það eru auðvitað aðrir þættir sem munu á endanum ráða þar miklu meira um. Ég get nefnt í því sambandi hvernig haldið er á opinberum fjármálum, hvernig framkvæmd peningastefnunnar er og hvernig opinber fjármál og framkvæmd peningastefnu tala saman. Ég skal nefna líka í því samhengi hvers konar ástand ríkir í samskiptum stjórnvalda og vinnumarkaðar hvers tíma. Spenna á því sviðinu getur valdið miklu tjóni og endað í þensluskeiði sem kallar fram vaxtahækkanir og laðar fram áhugann á þessum viðskiptum, þannig að þetta er í sjálfu sér viðbragðstæki sem er svolítið aftarlega í þeim vörnum sem við getum byggt upp. Við höfum sinnt hinum vörnunum, ég nefni lög um opinber fjármál og samninga við sveitarfélögin, ég nefni samstarf vinnumarkaðarins um gerð SALEK-samkomulagsins og jöfnun lífeyrisréttinda í landinu. Ég nefni sömuleiðis myndun þjóðhagsráðs og fleira gæti ég tínt til. Við höfum sinnt þeim helstu þáttum sem við getum haft áhrif á til þess að ýta undir varanlegan og meiri stöðugleika í landinu en því verki verður svo sem aldrei lokið. Enn er talsvert verk óunnið í því að ná betur saman við vinnumarkaðinn, en hér er komið frumvarp sem skiptir máli í þessu heildarsamhengi að sé til staðar til að draga úr áhuga, við vissar aðstæður, á miklum skammtímahreyfingum inn og út úr landinu sem á endanum geta orðið til tjóns fyrir okkur.

Að því leytinu til er um mikil tímamót að ræða sem mér heyrist á allri umræðu sem fram hefur farið fram til þessa að sé ágætissamstaða um í öllum grundvallaratriðum þó að ég hefði svo sem gjarnan viljað sjá aðdragandann, undirbúninginn, samtalið innan stjórnkerfisins og milli þings og framkvæmdarvalds, eftir atvikum Seðlabankans, hafa fengið að þroskast aðeins meira áður en málið kom fram.

Þetta er staðan. Ég met það þannig að það sé ekki annað verjandi en að leggja málið fram þegar við höfum nú sett saman reglurnar og með vísan í mat á þeirri stöðu sem við okkur blasir. Að því sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði að aflokinni umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.