145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[19:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, auðvitað hefði verið betra að hafa samráð. Við eigum hér samráðsnefnd þingmanna um losun hafta sem hefði verið hægt að kalla til. Hún hefur lítið verið nýtt á þessu kjörtímabili. Ég nýtti talsverðan tíma í að fara yfir skort á samráði hér síðast þegar við vorum að ræða þessi mál. Þá vorum við að ræða um meðferð krónueigna háða sérstökum takmörkunum. Þá kom það fram í nefndaráliti mínu, sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir tók líka undir, að því frumvarpi hefðu átt að fylgja tillögur til að taka á vaxtamunarviðskiptum. Það var algjörlega fyrirsjáanlegt, þegar við vorum að ræða það mál hér, fyrir tveimur vikum eða hvað það nú var, að þetta þyrfti að gera og ræða. En ég ætla ekkert að draga dul á það að mér finnst gott að þetta frumvarp sé komið fram. Þetta er það sem við höfum mörg hver kallað eftir þvert á flokka. Ég ætla ekkert að draga dul á það.

Mig langar að nýta andsvar mitt hér til að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Hann sagði áðan að við værum að tala um bráðabirgðaráðstöfun. Síðan yrðum við að horfa til framtíðar og þá sæi hann fyrir sér að eitthvert svona regluverk yrði fært inn í lög um Seðlabanka Íslands. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að skýra það nánar hvort skilningurinn sé þá ekki sá að svona tækja sé þörf til þess að geta rekið hér sjálfstæða peningastefnu, það sé órjúfanlegur hluti þess að aflétta höftum að slík tæki séu hluti þess sem hægt er að beita til að standa vörð um sjálfstæða peningastefnu.

Hitt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um lýtur að reglunum sem hann gerði hér sjálfur að umtalsefni. Þar er annars vegar reifað hvers konar innflæði eigi heima undir reglunum og hins vegar hvernig eigi að haga framkvæmd bindingar reiðufjár. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telur að jafnvel hluti þessara reglna ætti þá frekar að vera alfarið á hendi Seðlabankans. Stóri ramminn væri staðfestur af ráðherra (Forseti hringir.) en hluti reglunnar, sem varðar nánari framkvæmd og útfærslu, væri þá eingöngu á hendi Seðlabanka.