145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[20:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þessa síðustu spurningu þá rakti ég það, það eru alveg gild sjónarmið fyrir því. Það má alveg sjá fyrir sér að gera breytingar á þessari reglu. Ég rakti það í framsögu minni hvers vegna ég legg þetta svona til og ég hvatti nefndina sérstaklega til að huga að þessu atriði. Ég tek eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er þeirrar skoðunar að ráðherrann eigi að koma að þessum málum, þannig að það er skiljanlegt að einhver sjónarmið séu uppi um þetta atriði sérstaklega.

Varðandi hitt atriðið sem spurt var um sem sneri að framtíðinni, þá sé ég þetta þannig fyrir mér að þetta rati sem varanlegt ákvæði inn í lög um Seðlabankann, að það verði með einhverjum slíkum hætti bindiskylda, jafnvel eingöngu í þessu formi. Ætli við munum ekki meta upp að einhverju marki árangurinn af þessu? Er þetta nauðsynlegur og órjúfanlegur þáttur þess að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli og reka sjálfstæða peningastefnu? Ég held að þetta sé gott hjálpartæki. Við skulum til dæmis horfast í augu við það að við vissar aðstæður kann það að duga fjárfestum að eygja von um styrkingu gengis. Jafnvel þótt það væri ekki ávinningur í vaxtamuninum þá mundu menn undir vissum kringumstæðum, þrátt fyrir engan ávinning á vaxtahliðinni, vilja koma til þess að eygja von um að geta hreyft gengið. Dæmi þess eru auðvitað þekkt. Í því tilviki mundi reglan og þetta stjórntæki ekki duga til. Þá eru vextirnir einfaldlega ekki ráðandi þáttur. Það fer svo (Forseti hringir.) eftir því hversu grimmt tækinu er beitt hverju sinni hversu lítill vaxtamunurinn þarf að vera fyrir einstaka fjárfesta (Forseti hringir.) til þess að þeir hreyfi sig úr einu vaxtasvæði yfir á hið næsta. Við því er ekki hægt að gefa neitt einhlítt svar, en ég tel alveg einsýnt að tækið hjálpar.