145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[20:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur fram í greinargerðinni að veruleg breyting sé að verða á því hvernig fjallað er um innflæði fjármagns og þá sérstaklega það sem kallað er spákaupmennskuflæði, held ég að það sé kallað, þessum reglum er auðvitað fyrst og fremst ætlað að eiga við slíkt flæði, ekki það sem við köllum bara almennar fjárfestingar í augum fólks; að þetta umhverfi sé að breytast á alþjóðavettvangi. Telur hæstv. ráðherra að það verði einhver vandkvæði við að setja upp slík varúðartæki til lengri tíma á alþjóðavettvangi? Hér er rakið að þetta sé að verða algengara í praxís í löndunum í kringum okkur. Hins vegar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra eins, í ljósi þess að þetta mál kemur hér fram og verið að reyna að ljúka því fyrir þinglok. Það virðist vera verulegur áhugi á slíku innflæði núna til Íslands og ég spyr: Er búið að meta umfang þeirrar áhættu sem sá áhugi getur skapað?