145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[20:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stutta svarið við þessu er einfaldlega það að við mundum færa yfir í slík lög heimildina fyrir Seðlabankann til að setja reglur um bindingu. Ég get vel séð fyrir mér að slíkar aðstæður skapist að vextir til dæmis hafi lækkað, dregið hafi úr vaxtamun, að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessum skammtímahreyfingum og þar af leiðandi kæmu út nýjar reglur sem kvæðu ekki á um neina bindiskyldu, við tækjum bara bindiskylduna úr sambandi. En heimildin til að setja bindiskyldu væri alltaf virk og til staðar, þ.e. lifandi.

Mig langar síðan í framhaldi af þessu að vekja athygli á einu sem mér finnst erfitt að sleppa í þessari umræðu þó að það tengist ekki alveg beint fyrirspurninni, sem er það að fyrir einungis örfáum árum vorum við í þessum sal að setja reglur um fjármagnshöft vegna þess að við þurftum að koma í veg fyrir útstreymi gjaldeyris. Við höfðum áhyggjur af því að við hefðum ekki nægan gjaldeyri í landinu til þess að mæta þörfinni fyrir útstreymi. Við höfum þessar reglur enn í gildi sem fjármagnshöft. Hér erum við að setja reglur vegna þess að við höfum nú orðið áhyggjur af því að innstreymið reynist okkur um megn, að okkur muni ganga illa að hafa góða stjórn á áhrifum innstreymisins. Mér finnst erfitt að fara í gegnum þessa umræðu án þess að vekja athygli á því á hversu stuttum tíma við höfum færst úr því að hafa þörf fyrir að setja höft á útstreymið yfir í að setja reglur um það hvernig við ætlum að hafa áhrif á og takmarka áhrif innstreymisins. Þetta sýnir hvernig Ísland getur sveiflast ótrúlega á skömmum tíma upp úr öldudal og aftur niður og í þessu tilliti (Forseti hringir.) höfum við nánast upplifað kraftaverk þegar kemur að þessari hreinu erlendu stöðu þjóðarbúsins og hvað horfurnar eru skyndilega orðnar miklu betri.