145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[20:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, í reynd er það hugmyndin í sinni allra einföldustu mynd, þá eru það tilteknar tegundir fjárfestinga sem við þekkjum af því að fjárfestar leiti í þær sem eru að hugsa sér skammtímaávinning af vaxtamun. Þetta kvika fé getur valdið okkur vandræðum við að viðhalda hér stöðugleika og ná árangri í framkvæmd peningastefnu. Þess vegna er reglunum sem Seðlabankanum er heimilt að setja á grundvelli þessara laga ætlað að draga úr ávinningnum og þar með hvatanum til þess að stunda slík viðskipti. En eins og ég hef verið að rekja getur þetta aldrei verið fullkomið tæki. Það getur einungis hjálpað til við að draga úr áhuganum.