145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum.

160. mál
[20:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu máli. Þetta er mjög mikilvægt. Í þessum málaflokki þegar kemur að náttúrunni og sérstaklega á svo stórum skala eins og þegar um útblástur hættulegra gastegunda er að ræða og því um líkt, þá heyrast af og til efasemdir um að þessar breytingar í náttúrunni séu af mannavöldum. Mig langaði einfaldlega að spyrja hv. þingmann hvort á fundum nefndarinnar hafi komið fram eitthvað sem mætti kalla efasemdir um það. Eða voru allir gestir og allir nefndarmenn algjörlega sannfærðir án þess einu sinni að viðra efasemdir um að þetta væri vissulega tilfellið? Mér finnst mikilvægt að það komi fram vegna þess að í þessum málaflokki fyllist fólk mjög oft efasemdum, sérstaklega þegar menn vilja fara að skattleggja eða setja gjöld, þá er allt í einu eins og vísindaleg gögn hætti einhvern veginn að vera það. Mér finnst mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu hvort svo hafi verið.